Fréttir

Fjölgað verður um tvo hjá Lögreglunni á Vesturlandi

Þorbjörg S Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra kynnti í upphafi árs áform sín um að fjölga lögreglumönnum um fimmtíu þegar á þessu ári. Markmið hennar með aukningunni var að efla löggæslu í landinu og tryggja öryggi almennings ásamt því að bæta öryggi lögreglumanna. Ákvörðun ráðherra var byggð á þeirri staðreynd að heildarfjöldi starfandi lögreglumanna hefur ekki haldist í hendur við fólksfjölgun í landinu, stórfellda aukningu á komum ferðamanna til landsins né heldur hvað varðar breytt landslag afbrota.

Árið 2024 voru alls 795 lögreglumenn við störf á Íslandi, að frátöldum nemum og héraðslögmönnum. Brottfall innan lögreglu er umtalsvert og hefur aukist á undanförnum árum. Ráðherra hyggst láta greina ástæður brottfalls innan lögreglunnar og leita leiða til að snúa þeirri þróun við.

Hjá embætti Lögreglunnar á Vesturlandi eru nú starfandi 5% lögreglumanna í landinu. Hlutfall af hverjum 10 þúsund íbúum er þar 26,4%. Það er þriðja lægsta hlutfall yfir landið miðað við íbúafjölda. Einungis á Norðurlandi eystra og höfuðborgarsvæðinu er hlutfall lögreglumanna lægra miðað við íbúafjölda. Af þeim fimmtíu lögreglumönnum sem nú verður fjölgað, verða tveir þeirra staðsettir á Vesturlandi. Lögreglustjórar hvers embættis annast daglega stjórn og rekstur í sínu umdæmi og bera ábyrgð á framkvæmd lögreglustarfa innan þess og ráðstafa því stöðugildum í sínu umdæmi.

Fram kemur í tilkynningu ráðuneytisins að á landsbyggðinni verði lögð áhersla á fjölgun lögreglumanna til að stytta viðbragðstíma lögreglu. Nefna má að hér á Vesturlandi hefur sveitarfélagið Dalabyggð ítrekað vakið athygli á nauðsyn þess að lögregla hafi fasta viðveru í Búðardal svo stytta megi viðbragðstíma í ljósi vegalengda og aukins umferðarþunga. Um það bil 80 kílómetrar eru frá Búðardal í næstu þéttbýlisstaði, þ.e. Stykkishólm, Borgarnes, Hvammstanga; Hólmavík og Reykhóla. Engin lögregla hefur haft fasta viðveru í Búðardal síðan 2022. Þar er nú lögreglumaður í hálfu stöðugildi en stendur vaktir í Borgarnesi.