
Glímt við lax í Langadrætti í Hítará. Ljósm. úr safni
Dapurt laxveiðisumar brátt á enda á Vesturlandi
Nú þegar laxveiðitímabilinu fer að ljúka er ljóst að veiðin í ám á Vesturlandi hefur víðast hvar verið dræm. Hlýtt vor og sumar á vafalítið sinn þátt í því þótt ástæðurnar geti verið fjölmargar aðrar. Í gær höfðu samtals 7.849 villtir laxar veiðst í ánum á Vesturlandi og Vestfjörðum, en það er ríflega helmingur allra laxa sem veiddir eru á stöng á landinu. Þverá og Kjarará í Borgarfirði tróna á toppnum í fjölda með 1.577 veidda laxa í gær, en heildarveiðin í fyrra var 2.239 laxar. Þetta verður að teljast döpur veiði á 13 stangir. Deilt niður á stangir hefur hver veiðimaður náð að meðaltali 1,3 laxi á dag. Árin 2019 til 2023 var heildarveiðin í Þverá engu að síður minni en hún verður nú.