
Fjöldi verkefna hjá Björgunarfélagi Akraness
Annasamt hefur verið hjá Björgunarfélagi Akraness síðustu daga, en sveitin var kölluð út fjórum sinnum á innan við tveimur sólarhringum. Aðfaranótt laugardags var farið í umfangsmikla leit að týndum einstaklingi í Hveragerði og nokkrum klukkustundum síðar var félagið kallað út að Paradísarfossi í Hvalfirði þar sem aðstoða þurfti konu sem hafði fótbrotnað. Aðfararnótt mánudags var leitað að stúlku á Akranesi sem farið hafði að heiman skömmu fyrir miðnætti. Hún fannst síðan um þrjúleitið um nóttina heil á húfi. Á mánudaginn fór svo sjóflokkur félagsins í aðgerðir eftir að áhafnir flugvéla heyrðu merki frá neyðarsendi.
„Frá því í byrjun maí hefur félagið fengið 26 útköll og þjónustubeiðnir en helmingur þeirra hefur verið á sjó. Björgunarfélagið gæti ekki starfað nema að hafa frábært fólk í sínum röðum sem er tilbúið að stökkva til á öllum tímum sólarhringsins,“ segir í tilkynningu frá Björgunarfélagi Akraness.