
Hópurinn á Borðeyri. Ljósm. dalir.is
Sveitarfélög í viðræðum héldu vinnustofu um framtíðarsýn
Þriðjudaginn 26. ágúst var haldin vinnustofa á Borðeyri í tengslum við sameiningarviðræður Dalabyggðar og Húnaþings vestra sem nú standa yfir. Þátttakendur voru lykilstarfsmenn sveitarfélaganna á þeim sviðum sem fjallað var um, kjörnir fulltrúar og fulltrúar úr fastanefndum. Markmiðið með vinnustofunni var að leiða saman þá sem best þekkja til mála til að móta framtíðarsýn og draga fram kosti og ókosti sameiningar fyrir íbúana. Um 45 þátttakendur mættu til leiks og var skipt upp í fjóra starfshópa sem fjölluðu hver um sitt málasvið. Málasviðin voru rekstur, velferðarmál, fræðslumál, íþróttir, tómstundir og lýðheilsa og byggðaþróun.