Fréttir

Minningartónleikar í þágu Einstakra barna

Næstkomandi mánudagskvöld klukkan 20:30 verða haldnir minningartónleikar í Akraneskirkju. „8. september verða liðin fimm ár frá því að frumburðurinn minn, hann Stefán Svan, lést tæplega fjögurra mánaða gamall. Í minningu hans ætla ég að halda tónleika sem verða til styrktar Einstökum börnum,“ segir Ásta Marý Stefánsdóttir í Skipanesi í samtali við Skessuhorn. „Hann Stefán Svan minn tilheyrði Einstökum börnum allt sitt líf en hann var einn afar fárra sem hafa greinst með heilkennið Cornelia de Lange syndrome hér á landi. Einstök börn hafa stutt við bakið á mér og mörgum öðrum fjölskyldum barna með sjaldgæf heilkenni og greiningar við ýmislegt sem fylgir því að eiga einstakt barn. Eins hef ég reynt að leggja mitt af mörkum til að gefa af mér til baka og kynna félagið með því að segja sögu okkar Stefáns Svans ásamt því að aðstoða á annan hátt. Sú upphæð sem safnast við sölu aðgangsmiða á tónleikana mun því renna óskert til Einstakra barna í minningu Stefáns Svans.“

Á tónleikunum í Akraneskirkju koma fram fjölmargir söngvinir Ástu Marý úr ýmsum áttum. „Þetta eru tónlistarmenn sem hjálpuðu mér að gera kveðjustund Stefáns Svans ógleymanlega og ég ber sterkar taugar til, en eiga það öll sammerkt að gefa vinnu sína í þágu þessa góða málefnis.“ Fram koma: Páll Óskar, Ragnheiður Gröndal, Hallveig Rúnarsdóttir, Ylfa og Hallur Flosabörn, Tindatríó, Rakel Páls, Kammerhópurinn Kvika, Viðar Guðmundsson, Mótettukórinn og Ásta Marý Stefánsdóttir. „Kynnir kvöldsins verður Ingvar Örn Ákason vinur minn en hann ætlar að sjá til þess að halda uppi fjörinu á milli atriða,“ segir Ásta Marý.

Ef þið viljið tryggja ykkur miða þá opnar miðasalan 1. september inná vefverslun Einstakra barna; https://www.einstokborn.is/is/vefverslun

Minningartónleikar í þágu Einstakra barna - Skessuhorn