Fréttir

Leita að neyðarsendi

Laust fyrir klukkan tíu í morgun var Björgunarfélag Akraness og þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út. Þá hafði Landhelgisgæslunni borist tilkynning frá flugvél sem var að fljúga yfir Akranes, á leið á Keflavíkurflugvöll, um að heyrst hafi í neyðarsendi. Engrar flugvélar eða báts var saknað. Af þeim sökum hafa íbúar á Akranesi í dag orðið varir við þyrluna sem sveimað hefur yfir í þeim tilgangi að finna hvaðan sendingarnar koma. Líklega er um neyðarsendi í eldri bát að ræða.

Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, staðfestir í samtali við fréttavef Vísis, að engrar flugvélar eða báts sé saknað. Engu að síður hafi verið þörf á að kanna hvað væri í gangi. „Þessi sendir er á ákveðinni tíðni og það bendir til þess að þetta sé eldri sendir á gúmmíbát eða björgunarbát. Sendar á nýrri bátum eða flugvélum, eða jafnvel persónulegir sendar fólks, senda boð í gervihnött með staðsetningu. Þannig að við vitum að þetta er eldri sendir í ljósi þess á hvaða tíðni hann sendir á. En engu að síður þá er verið að reyna að miða hann út,“ sagði Ásgeir.

Leita að neyðarsendi - Skessuhorn