
Versló nemendur á nýnemadegi á Akranesi
Verslunarskóli Íslands byrjaði vetrarstarfið 18. ágúst síðastliðinn líkt og allir framhaldsskólarnir á Vesturlandi. Í dag eru 388 nýnemar úr Versló í ferð á Akranesi. Í ferðinni er spilaður stigaleikur þar sem hver og einn bekkur þarf að safna sem flestum stigum með að framkvæma ýmsar og mjög ólíkar áskoranir. Til dæmis þarf að reyna að fá inngöngu í FVA, en þá þurfa nemendur að skrá sig úr Versló (sem er vesen)! Einnig að komast á hestbak, stela kind og þá er hægt að fá sérstök auka hundrað stig með því að fara með kindina í Krónuna.
Þau Magnús Ingi Árnason, Kolbrún Emma Óskarsdóttir og Elísabet Yrsa Viktorsdóttir komu við á ritstjórn Skessuhorns en ein af áskorunum dagsins var einmitt að komast í fréttirnar. Það tókst og gefur bekknum hundrað stig!