
Sjávarútvegssýning í Laugardalshöll 10.-12. september
Sjávarútvegssýningin „Sjávarútvegur / Iceland fishing expo 2025“ verður haldin dagana 10. - 12. september næstkomandi í Laugardalshöll. Er sýningin sú fjórða og sú stærsta til þessa. Að sýningunni stendur sýningarfyrirtækið Ritsýn sf. Ólafur M. Jóhannesson, framkvæmdastjóri þess segist finna fyrir miklum áhuga á sýningunni bæði hér innanlands og víða um heim.
„Sýningin stækkar með hverju árinu og fyllir nú öll sýningarsvæði Laugardalshallar. Sýningin er að þessu sinni afar fjölbreytt og áhugaverð. Á henni eru allar tegundir af fyrirtækjum sem þjóna íslenskum sjávarútvegi. Gestir koma til með að sjá allt það nýjasta í hátækniútbúnaði er tengist fiskvinnslu og útgerð. Þá er mikið af nýjum fyrirtækjum að koma inn með sýningarbása og ber meðal annars að nefna fyrirtæki sem þjóna fiskeldinu bæði á sjó og landi,“ segir Ólafur í samtali við Skessuhorn.
„Sýningin Sjávarútvegur / Iceland fishing expo hefur einnig verið afar ánægjulegur mótsstaður þeirra sem koma að eða hafa áhuga. Á síðustu sýningu árið 2022 komu um fjörutíu þúsund gestir allsstaðar að af landinu. Við búumst líka við miklum fjölda í ár og einnig finnum við fyrir auknum áhuga erlendra aðila víða um heim.“
Sjávarútvegssýningin verður opin frá kl. 14 til 19 á miðvikudag 10. september og frá kl. 10-18 á fimmtudag og föstudag 11. og 12. september.
