Íþróttir

Guðrún Karítas setti glæsilegt Íslandsmet í sleggjukasti

Um síðustu helgi fór Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum fram á Selfossi þar sem fremsta frjálsíþróttafólk landsins tók þátt. Borgfirðingar áttu þar sína fulltrúa. Í sleggjukasti kvenna kastaði Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir frá Vatnshömrum, sem keppir fyrir ÍR, lengst allra eða 71,38 m sem er glæsilegt nýtt Íslandsmet og í fyrsta sinn sem hún kastar sleggjunni yfir 70 metra. Guðrún Karítas átti best 69,99 metra frá því í vikunni áður. Þess má geta að Guðrún átti svo annað kast sem var yfir gamla Íslandsmetinu.