Fréttir

Bæta þarf löggæslu í Dölum

Sveitarstjórn Dalabyggðar skilaði á fundi sínum fyrir stuttu inn umsögn sinni um fyrirliggjandi frumvarpsdrög um almannavarnir. Þar er megin áhersla lögð á að vekja athygli á að ekki sé um að ræða fasta viðveru lögreglu í þessu víðfeðma sveitarfélagi né heldur neina aðstöðu fyrir lögreglu. Í árslok 2023 gaf ríkislögreglustjóri út skýrslu sem fjallar um löggæslu í Dölum. Þar segir að byggð og landfræðilegar forsendur í umdæmi lögreglustjórans á Vesturlandi kalli á staðsetningu lögreglustöðvar í Búðardal eða að Dalabyggð verði skilgreind sem sérstakt varðsvæði með eftirliti á sambærilegum tíma og lögreglustöð væri annars mönnuð. Nefnt er að Dalabyggð sé landfræðilega stórt sveitarfélag á krossgötum þar sem meginæð þjóðvegakerfisins til Vestfjarða liggi um sveitarfélagið. Nokkurn veginn jafnlangt sé til allra næstu þéttbýlisstaða eða ca. 80 km í Borgarnes, Stykkishólm, á Hvammstanga, Hólmavík og að Reykhólum.