
Metfjöldi tók þátt í Beint frá býli deginum
Í gær var árlegur Beint frá býli dagur haldinn á nokkrum stöðum á landinu. Daginn skipuleggja Samtök smáframleiðenda matvæla og félagið Beint frá býli. Markmiðið er að vekja athygli á hugmyndafræði beint frá býli, efla tengsl smáframleiðenda og neytenda og að selja vörur milliliðalaust. Að þessu sinni voru ábúendur á Erpsstöðum í Dölum gestgjafarnir. Að sögn Þorgríms Einars Guðbjartssonar bónda tókst dagurinn vel. Sextán framleiðendur seldu varning sinn og gestir voru um 700 sem er metfjöldi á þessum viðburðum hér á Vesturlandi. Veðrið var ágætt, þurrt en sólarlaust. Við leyfum meðfylgjandi myndum, sem Gunnlaug Birta Þorgrímsdóttir tók, að tala sínu máli.