
Alzheimersamtökin með fræðslu á Snæfellsnesi
Alzheimersamtökin bjóða til fræðslu á Snæfellsnesi á morgun og miðvikudag, dagana 26. og 27. ágúst, í Snæfellsbæ, Grundarfirði og Stykkishólmi þar sem starf samtakanna verður kynnt og fjallað um heilabilun, góð samskipti og stuðning við aðstandendur. Fræðslufundirnir eru opnir öllum áhugasömum og aðgangur er ókeypis.
Meiri þekking og minni fordómar
Eitt af meginmarkmiðum Alzheimersamtakanna er að auka þekkingu og dýpka skilning á þeim áskorunum sem einstaklingar með heilabilun og aðstandendur þeirra standa frammi fyrir. Umræða um heilabilun er einnig mikilvægur þáttur til að minnka fordóma í samfélaginu og þess vegna leggja samtökin mikla áherslu á að fræða sem flesta. Nú er ferðinni heitið á Snæfellsnesið þar sem haldin verða þrjú opin fræðsluerindi.
Tímasetning og staðsetning fræðslunnar er eftirfarandi:
• þriðjudagur 26. ágúst kl. 17:00 - Klif félagsheimili í Ólafsvík
• þriðjudagur 26. ágúst kl. 20:00 – Samkomuhúsið í Grundarfirði
• miðvikudagur 27. ágúst kl. 17:00 – Höfðaborg í Stykkishólmi
Heilabilun og samskipti
Thelma Jónsdóttir, fræðslustjóri Alzheimersamtakanna og Ásta Kristín Guðmundsdóttir, ráðgjafi þeirra sjá um fræðsluna. Þær kynna starfsemi samtakanna og fjalla um heilabilun og leiðir til að bæta samskipti við einstaklinga sem glíma við slíkar raskanir. Laufey Jónsdóttir, tengiráðgjafi Gott að eldast verkefnisins á Vesturlandi verður einnig með stutt erindi.
Allir velkomnir – aðgangur ókeypis
Þeir sem mæta öðlast betri skilning á breyttum aðstæðum og fá hugmyndir að bættum samskiptum og samveru. Alzheimersamtökin hvetja alla áhugasama til að mæta, hvort sem um er að ræða einstaklinga með heilabilun, aðstandendur, fagfólk eða aðra áhugasama.