
Vatnsrennsli að minnka í jökulhlaupinu
Jökulhlaup hófst á föstudaginn úr Hafrafellslóni í vesturjaðri Langjökuls. Lónið er jaðarlón og í það safnast leysingavatn úr jöklinum að sumarlagi. Þegar vatnsstaðan er orðin nægjanlega mikil þrýstir vatnið sér undir jökulröndina og æðir fram. Síðast varð umtalsvert jökulhlaup úr lóninu í ágúst 2020 en annað minna sumarið 2021. Vatnsstaða í lóninu var nú orðin hærri en nokkru sinni fyrr. Öll hlaup úr lónina hafa orðið síðsumars. Hlaupið nú hefur líkt og fyrri jökulhlaup síðan runnið í farveg Svartár og þaðan í Hvítá ofan við Húsafell. Snemma í nótt var rennsli hlaupsins sambærilegt hlaupinu sem varð í ágúst 2020 en undir morgun hafði dregið úr rennsli. Á rennslismæli við Kljáfoss kemur fram að klukkan 05:21 í morgun var hlaupið í hámarki þar, eða 255 rúmmetrar á sekúndu. Nú klukkan tíu var rennslið við Kláfoss fallið niður í 150 rúmmetra.