Fréttir
Hér má sjá hvernig Hvítáin ofan við Húsafell leit út síðdegis á laugardaginn. Ljósm. Þórunn Reykdal.

Vatnsrennsli að minnka í jökulhlaupinu

Jökulhlaup hófst á föstudaginn úr Hafrafellslóni í vesturjaðri Langjökuls. Lónið er jaðarlón og í það safnast leysingavatn úr jöklinum að sumarlagi. Þegar vatnsstaðan er orðin nægjanlega mikil þrýstir vatnið sér undir jökulröndina og æðir fram. Síðast varð umtalsvert jökulhlaup úr lóninu í ágúst 2020 en annað minna sumarið 2021. Vatnsstaða í lóninu var nú orðin hærri en nokkru sinni fyrr. Öll hlaup úr lónina hafa orðið síðsumars. Hlaupið nú hefur líkt og fyrri jökulhlaup síðan runnið í farveg Svartár og þaðan í Hvítá ofan við Húsafell. Snemma í nótt var rennsli hlaupsins sambærilegt hlaupinu sem varð í ágúst 2020 en undir morgun hafði dregið úr rennsli. Á rennslismæli við Kljáfoss kemur fram að klukkan 05:21 í morgun var hlaupið í hámarki þar, eða 255 rúmmetrar á sekúndu. Nú klukkan tíu var rennslið við Kláfoss fallið niður í 150 rúmmetra.

Hlaupið sem varð í ágúst 2020 hagaði sér öðruvísi, en þá hljóp fram úr lónina seint um kvöld og var megin þungi þess afstaðinn um morguninn þegar fólk fór á stjá. Heimafólk segir að þá hafi mun meiri aur verið í vatninu og það dekkra. Talsvert af laxi drapst í því flóði. Hlaupið nú náði því yfir lengri tíma, eða tæpa tvo sólarhringa.

Jökulvatnið safnast fyrir í Hafrafellslóni og þegar það hefur náð ákveðinni hæð þrýstir það sér undir jökullinn og ryðst fram. Myndina tók Þorsteinn Kristleifsson úr flugvél í gær.

Aurblandað vatnið ryður sér leið undir ísinn. Ljósm. Þorsteinn Kristleifsson