Fréttir
Gervitunglamynd frá 20. ágúst sem sýnir Hafrafellslón við jökuljaðarinn. Mynd: Veðurstofa Íslands

Jökulhlaup hafið úr Hafrafellslóni vestan Langjökuls

Jökulhlaup er hafið úr Hafrafellslóni vestan Langjökuls. Íbúum á svæðinu er bent á að huga að mögulegum áhrifum þess á eignir og búfénað við bakka Hvítár. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Hlaupið rennur í Svartá og þaðan í Hvítá í Borgarfirði. Að mati Veðurstofunnar virðist vatnsstaða Hafrafellslóns nú hærri en nokkru sinni fyrr og því ekki hægt að útiloka að hlaupið nú verði umfangsmeira en árið 2020. Mikil óvissa er um þróun hlaupsins en hversu hraður rennslisvöxturinn verður ræður miklu um hámarksrennsli og útbreiðslu hlaupsins.

Eins og áður sagði virðist vatnsstaða Hafrafellslóns í vesturjaðri Langjökuls nú hærri en nokkru sinni fyrr. Undanfarnar vikur hafa sérfræðingar Veðurstofunnar fylgst með þróun lónsins með gervihnattamyndum. Lónið er jaðarlón og í það safnast leysingavatn úr jöklinum að sumarlagi. Síðast varð umtalsvert jökulhlauo úr lóninu í ágúst 2020 og annað minna varð sumarið 2021.

Á gervitunglamyndum sem teknar voru 20. ágúst sáust vísbendingar um að lónið væri byrjað að tæma sig. Í gær bárust Veðurstofunni svo tilkynningar frá fólki á svæðinu um að vatn væri farið að flæða úr lóninu yfir jökuljaðarinn og þaðan í Svartá, sem síðan fellur í Hvítá ofan Húsafells.