Fréttir
Hraun í Hítardal. Ljósm. mm

Vísindafólk segir ekki aukna hættu á eldgosi

Almannavarnarnefnd Vesturlands hélt opinn íbúafund í Hjálmakletti í Borgarnesi í gær. Tilefni þessa upplýsingafundar var skjálftavirkni við Grjótárvatn í Ljósufjallakerfinu og raunar einnig misvísandi skilaboð vísindamanna um túlkun mæligagna í sumar. Fyrr í sumar fullyrti Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur að skjálftavirkni við Grjótárvatn við Mýrar benti til þess að kvika væri að færast ofar í jarðskorpuna með tilheyrandi auknum líkum á eldgosi. Í viðtölum í fjölmiðlum í framhaldinu sagði Þorvaldur að virknin sýndi að vel geti komið eldgos á Snæfellsnesi innan tveggja til þriggja ára. Þegar kvikan væri komin upp á tíu kílómetra dýpi væri í raun verið að undirbúa eldgos. Fyrir þessi ummæli var Þorvaldur snupraður af öðrum vísindamönnum, meðal annars Haraldi Sigurðssyni eldfjallafræðingi sem sagði þetta; „órökstudda spá,“ hjá Þorvaldi. „Það er ábyrgðarhlutverk þegar sérfræðingur kemur fram með spá um náttúruhamfarir. Gera skal kröfu um að slík spá sé styrkt með birtum gögnum. Svo er ekki hér og reyndar rangt farið með,“ sagði Haraldur.

Á fundinum í Hjálmakletti í gær héldu m.a. framsögu þau Ásta Rut Hjartardóttir sérfræðingur í eldvirkni og sprunguhreyfingum hjá Veðurstofu Íslands og Páll Einarsson jarðskjálftafræðingur og fyrrverandi prófessor í jarðeðlisfræði. Þau tóku undir með Haraldi og fullyrtu að ekkert benti nú til þess að aukin hætta væri á eldgosi í Ljósufjallakerfinu, en sögðu að ónákvæmni í mælingum, meðal annars vegna þess að mælir í Hítardal datt út í sumar, hafi leitt til flökts á mælingum sem Þorvaldur Þórðarson hefði síðan túlkað með fyrrgreindum hætti. Blaðamaður Skessuhorns var á fundinum og fangaði það helsta sem fram fór.

Aðstæður kölluðu á upplýsingafund

Almannavarnanefnd Vesturlands var sett á laggirnar fyrir fáum misserum síðan einmitt vegna jarðhræringa í Ljósufjallakerfinu. Nefndinni er gert að samhæfa aðgerðir og viðbragð hlutaðeigandi viðbragðsaðila og upplýsa íbúa um stöðu mála hverju sinni komi til vár. Formaður nefndarinnar er Björn Bjarki Þorsteinsson sveitarstjóri í Dalabyggð. Hann setti fundinn og skipaði Stefán Brodda Guðjónsson sveitarstjóra í Borgarbyggð fundarstjóra. Björn Bjarki segir að nefndin hafi verið í samskiptum við náttúrvársérfræðinga hjá Veðurstofunni enda er það hlutverk Veðurstofunnar að halda um eftirlit við aðstæður sem þessar. Það hlutverk hafi vísindamenn Veðurstofunnar leyst vel af hendi, að mati Bjarka. Nú hafi, að mati Almannavarnarnefndar, þótt brýnt að bjóða íbúum á svæðinu til fundar þar sem staða mála væri kynnt og rædd milliliðalaust. Tímasetning fundarins nú hafi einmitt verið misvísandi skilaboð sem bárust í sumar um aukna hættu á eldvirkni. Á fundinum var einnig fjallað um fjarskiptamál á svæðinu næst Grjótárvatni og þá hélt forstjóri Náttúruhamfarastofnunar erindi sem einkum snerist um tryggingamál, ef til náttúruhamfara kemur.

Ásta Rut Hjartardóttir og Páll Einarsson voru frummælendur á fundinum.

Eldgos ekki líklegt

Vísindafólkið Ásta Rut Hjartardóttir og Páll Einarsson héldu erindi um stöðu mála og skiptust á að koma fram. Fram kom að Grjótárvatn og Snæfellsnes í heild eiga það sameiginlegt að liggja ekki á flekaskilum líkt og t.d. Reykjanesið. Sögðu þau jarðskjálftavirkni mjög staðbundna við Grjótárvatn og ef svo ólíklega færi að eldgos yrði á svæðinu væri lang líklegast að það yrði í kringum Grjótarvatn. Ítrekuðu þau að engin tengsl væru á milli þessa staðbundna svæðis og Snæfellsness. Útskýrðu þau fyrir gestum jarðskjálftamælingar og aflögunarmælingar. Þær mælingar sýna að ekkert landris hefur orðið en undanfarin fjögur ár hafa mælst smáskjálftar mjög staðbundið í kringum Grjótárvatn. Stærstu skjálftarnir hafi orðið í maí, júní og júlí á þessu ári og mælst um 3,7 stig. Þá hafi verið bætt við mælum til að auka áreiðanleika mælinga, en fjölgun jarðskjálftamæla þýðir minni óvissu í dýptarmælingum, þ.e. upptökum skjálftanna. Fram kom að allir þessir skjálftar eiga upptök sín á 15-20 kílómetra dýpi og hafa þeir ekki verið að leita ofar. Þá hafi ekki orðið landris. Útskýrðu Ásta Rut og Páll að ástæða smáskjálfta á svæðinu væri sú að kvika hefur verið að safnast í hólf á miklu dýpi undanfarin fjögur ár. Páll Einarsson fór yfir nokkrar sviðsmyndir um mögulega þróun. Í fyrsta lagi að kvikusöfnun haldi áfram um tíma en hætti svo, stærri jarðskjálftar gætu orðið, þá með hættu á skriðuföllum og loks er þriðja sviðsmyndin að kvikan leiti upp á yfirborðið. Sögðu þau ólíklegt að til eldgoss komi þótt aldrei sé hægt að útiloka slíkt.

Skjálftarnir gagnlegir fyrir vísindin

En ef svo færi að kvika leitaði upp á yfirborðið, sagði Páll, benti hann á að öll eldgos á þessu svæði hafi flokkast sem lítil gos, hraun runnið stutt og þau væru staðbundin í dalbotnum, eins og í Hítardal, Grjótarvatni og við Langavatn. Lengsta hraunið sem rann var tíu kílómetrar af því dalurinn var þröngur. „Þetta hafa allt verið lítil gos og áhrifalítil á þessu svæði,“ sagði Páll. Sagði hann að mest yrðu áhrifin ef hraun bryti sér leið upp um vatn, sem gæti leitt til sprenginga og öskufalls í upphafi. Vissulega væri lang líklegast ef kæmi til goss að það yrði í Grjótárvatni, eða í nærliggjandi dölum svo sem Hraundal, Hítardal eða Grenjadal. Páll sagði hins vegar að þessir smáu skjálftar undanfarin fjögur ár hefðu þann kost að gefa vísindamönnum gagnlegar upplýsingar til að meta aðstæður hverju sinni og túlka það sem þeir geta lesið úr þeim.

Alltaf einhver fyrirvari

„Í aðdraganda eldgosa koma skýr merki, svo sem að landris fer að mælast og jarðskjálftavirkni verður ákafari. Alltaf verða að lágmarki einhverjir klukkutímar sem hægt væri að sjá í hvað stefndi og vara fólk við.“ Páll sagði fyrirboða eldgosa vissulega misjafnlega langa, stystir væru þeir jafnan í Heklu. Fyrirboðinn hafi verið 30 klukkutímar í Heimaeyjargosinu 1973, en gosið í Eyjafjallajökli hafi átt sér 18 ára aðdraganda. Að endingu bentu þau Páll og Ásta Rut á að alltaf væri vakt á Veðurstofunni, nótt sem dag, allt árið. Bentu þau áhugasömum að kíkja á rauntímaeftirlit á vefslóðinni islenskeldfjoll.is. Það er gagnvirk íslensk eldfjallavefsjá og opinbert uppflettirit um virkar eldstöðvar á Íslandi, alls 32 talsins, á bæði íslensku og ensku.

Fólk hugi að tryggingum

Næst á mælendaskrá var Hulda Ragnheiður Árnadóttir forstjóri Náttúruhamfaratrygginga Íslands, NTÍ, sem ræddi við gesti í gegnum fjarfundabúnað. Þetta er tryggingafélag 100% í eigu ríkisins sem bætir tjón af hamförum vegna jarðskjálfta, eldgosa, snjóflóða, vatns- og sjávarflóða og vegna skriðufalla. Allir fasteignaeigendur greiða iðgjald til NTÍ, 37.500 krónur á af hverjum 100 milljónum af brunabótamati húseignar. Hulda sagði að almennt væri fólk með of lágar tryggingar vegna innbús og þá væri mjög algengt að brunabótamat fasteigna væri of lágt. Tjónabætur vegna hamfara tækju ætíð mið af brunabótamati. Hvatti hún fólk til að yfirfara tryggingar sína og óska eftir endurmati en því sinni Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, HMS.

Slæmt samband

Síðastur með framsögu var Sigurður Ingi Hauksson forstöðumaður tæknideildar Neyðarlínunnar. Fór hann yfir fjarskiptamál í nágrenni Grjótárvatns, bæði Tetra kerfi viðbragðsaðila og fjarskiptasamband sem íbúar treystu á að væri í lagi. Sagði Sigurður að fara þyrfti í umfangsmiklar endurbætur á almenna kerfinu sem og fjarskiptakerfi viðbragðsaðila. Nefndi hann Hítardal og Langadal sem dæmi um svæði sem væru með gloppótt samband. Það er í raun það sama og fram hefur komið í fréttum Skessuhorns í mörg ár.

Bilun í jarðskjálftamæli í Hítardal í sumar, sem mögulega má rekja til lélegs farsímasamband virðist vera ástæða þess að vísindamaðurinn Þorvaldur Þórðarson mistúlkaði mæligögn og fór með þá staðhæfingu í fjölmiðla í júlí að kvika væri að leita nær yfirborðinu undir Grjótárvatni. Það átti ekki við rök að styðjast, en jók áhyggjur íbúa. Því má segja að helsta áskorunin nú sé að koma þessu farsímasambandi í lag í eitt skipti fyrir öll sem allra fyrst. Verkefnið er því í höndum ríkis, sveitarfélaga, fjarskiptafyrirtækja, Veðurstofunnar, Neyðarlínunnar og annarra sem tryggja eiga öryggi landsmanna. „Almannavarnanefnd Vesturlands mun fylgja málinu fast eftir,“ segir Björn Bjarki Þorsteinsson formaður nefndarinnar.

Um hundrað manns mættu á upplýsingafund Almannavarnanefndar Vesturlands.