Fréttir

Beint frá býli dagurinn á Erpsstöðum á sunnudaginn

Beint frá býli dagurinn verður haldinn í þriðja sinn á nokkrum stöðum hér á landi sunnudaginn 24. ágúst. Það eru Samtök smáframleiðenda matvæla og félagið Beint frá býli sem standa að viðburðinum. Markmiðið er að vekja athygli á hugmyndafræði beint frá býli, efla tengsl milli framleiðenda og neytenda og hvetja um leið fleiri til að hasla sér völl á sviði smáframleiðslu matvæla. Á síðasta ári sóttu 4.500 manns daginn á sjö lögbýlum víðs vegar um landið og var það um 50% fjölgun frá árinu á undan.

Gestgjafarnir hverju sinni hafa það að markmiðið að bjóða sem flestar tegundir matvæla beint frá framleiðendum auk þess sem gestir njóta samveru í sveitinni og kynnast betur starfinu að baki matvælaframleiðslunnar.

Að þessu sinni eru það ábúendur á Erpsstöðum í Dölum sem opna býli sitt fyrir gestum. Þar munu, auk ábúenda Rjómabúsins á Erpsstöðum, heimavinnslu- og smáframleiðendur af Vesturlandi kynna og selja vörur sínar. Markaðurinn verður opinn frá kl. 13-16.