
Framkvæmdastjórinn tók út séreignasparnað sinn
Nú eru árleg tekjublöð að koma út þar sem sagt er frá tekjum fólks. Slíkt hefur jafnan verið umdeilt í ljósi þess að í einhverjum tilvikum er ekki um hefðbundnar atvinnutekjur að ræða og því villandi upplýsingar. Í einhverjum tilfellum hefur skattstjóri áætlað laun viðkomandi og svo getur fólk sem komið er yfir sextugt tekið út séreignasparnað sem leggst þá við heildarlaun viðkomandi. Slysavarnafélagið Landsbjörg sá ástæðu til sérstakrar tilkynningar um málið:
„Vegna frétta fjölmiðla í morgun um að framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafi á árinu 2024 verið með um 9,8 milljónir í laun á mánuði, er rétt að fram komi að stærsti hluti þessara reiknuðu launa eru úttekt séreignasparnaðar Kristjáns síðustu 35 ára, sem Kristján leysti út á síðasta ári, líkt og heimilt er við sextugs aldur. Hér er dæmi um hve villandi það er þegar laun eru reiknuð til baka út frá skattgreiðslum, en við úttekt séreignasparnaðar greiddi hann að sjálfsögðu þá skatta sem honum bar, sem svo koma fram í álagningarskrá skattyfirvalda. Félagið greiðir laun í samræmi við stöðu sína sem stærstu samtök sjálfboðaliða í landinu. Þau eru sanngjörn en eiga talsvert í land með að komast inn á topp tíu listann, hvað þá að toppa hann,“ segir í tilkynningu frá Landsbjörgu.