
Hvalfjarðardagar standa nú sem hæst
Bæjar- og héraðshátíð Hvalfjarðardagar stendur nú sem hæst, hófst á fimmtudaginn með litahlaupi ungmennafélagsins en lýkur á morgun sunnudag með gusutíma á Hlöðum. Í gær var boðið upp á kjötsúpu á Vinavelli í Melahverfinu og brekkusöng í kjölfarið sem Hjörvar Gunnarsson stýrði. Dagskrárliðir teygja sig um alla sveit. Í dag hófst dagskráin með skemmtiskokki, markaður kvenfélagsins Lilju verður í Stjórnsýsluhúsinu en klukkan 14 tekur við fjölskyldudagskrá á Vinavelli. Bent er á auglýsingu um nánari dagskrá í Skessuhorni vikunnar. Meðfylgjandi myndir tók Kolla Ingvars fyrir Skessuhorn í gærkvöldi á Vinavelli og við leyfum þeim að tala sínum máli.




