Fréttir

Bálhvasst á Holtavörðuheiði og ferðavagnar eyðilögðust

Frá því í gær hefur gul viðvörun verið í gildi fyrir norðvesturhluta landsins vegna vestan hvassviðris. Fyrir Breiðafjarðarsvæðið gildir viðvörun til klukkan 9 í fyrramálið, sunnudag. Þar verður suðvestan 8-13 m/s, með 13-18 m/s í vindstrengjum á Snæfellsnesi og vindhviður að 30 m/s. Við slíkar aðstæður er varasamt að vera á ferð á ökutækjum sem taka á sig vind.

Aðstæður sem þessar geta verið varhugaverðar eins og kom berlega í ljós á Holtavörðuheiði síðdegis í gær. Þar snögghvessti og fjöldi fólks lenti í vandræðum. Nokkrir ferðavagnar fuku og gjöreyðilögðust. Björgunarsveitin Húnar á Hvammstanga stóð í ströngu við að aðstoða ferðalanga sem voru á leið yfir Holtavörðuheiði. Verkefnin fólust meðal annars í að aðstoða fólk á mótorhjólum og reiðhjólum niður af heiðinni og hjálpa fólki sem misst hafði ferðavagna sína. Að minnsta kosti þrjú hjólhýsi splundruðust, hestakerra fauk og fellihýsi fauk upp. Meðfylgjandi myndir eru af heiðinni síðdegis í gær sem teknar voru af Húnamönnum.

Bálhvasst á Holtavörðuheiði og ferðavagnar eyðilögðust - Skessuhorn