Fréttir
Svipmynd úr Hítardal. Ljósm. mm

Almannavarnarnefnd boðar íbúafund vegna skjálftavirkni

Almannavarnarnefnd Vesturlands hefur boðað til opins íbúafundar vegna skjálftavirkni við Grjótárvatn í Ljósufjallakerfinu. Tilgangur fundarsins er að upplýsa íbúa um stöðu mála vegna yfirvofandi jarðskjálftavirkni. Sem kunnugt er ræða jarðvísindamenn nú hvernig túlka skal þá virkni og hvort virkninni fylgi eldgos á næstu árum og þá hvenær búast megi við því.

Fyrirlesarar á fundinum verða Ásta Rut Hjartardóttir sérfræðingur í eldvirkni og sprunguhreyfingum hjá Veðurstofu Íslands, Páll Einarsson jarðskjálftafræðingur og fyrrverandi prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands sem mun ræða sviðsmyndir í tengslum við skýrslu sem unnin var fyrir Veðurstofu Íslands í mars 2025, Sigurður Ingi Hauksson forstöðumaður tæknideildar Neyðarlínunnar og Hulda Ragnheiður Árnadóttir forstjóri Náttúruhamfaratryggingar Íslands.

Einnig verða á fundinum fulltrúar Ríkislögreglustjóra, Lögreglunnar á Vesturlandi og sveitarfélaga á svæðinu. Allir munu þeir svara spurningum og taka þátt í umræðum.

Bjarki Þorsteinsson sveitarstjóri í Dalabyggð og formaður Almannaverndarnefndar Vesturlands segir í samtali við Skesshorn að nefndin hafi að undanförnu verið í samskiptum við náttúrvársérfræðinga hjá Veðurstofunni frá því að jarðhræringa varð vart enda hlutverk Veðurstofunnar að halda um eftirlit við aðstæður sem þessar. Það hlutverk hafi vísindamenn Veðurstofunnar leyst vel af hendi að sínu mati. Nú sé að mati nefndarinnar hins vegar kominn tími til að bjóða íbúum á svæðinu til fundar þar sem staða mála verði kynnt og rædd milliliðalaust. Það eigi ekki bara við um jarðfræðihluta málsins heldur einnig og ekki síður stöðu fjarskipta og tryggingamála. Þá segir Bjarki að í kjölfar fundarins sé ætlun Almannavarnarnefndarinnar að koma á framfæri upplýsingum til íbúa á nærliggjandi svæðum og tryggja þannig að íbúar haldi vöku sinni ef frekari jarðhræringar verða á svæðinu.

Íbúafundur Almannavarnarnefndar Vesturlands verður haldinn miðvikudaginn 20. ágúst í Hjálmakletti í Borgarnesi og hefst hann kl. 16:30.

Grjótárvatn þar sem skjálftavirkni hefur verið að mælast. Ljósm. Þórunn Reykdal

Almannavarnarnefnd boðar íbúafund vegna skjálftavirkni - Skessuhorn