
Púttkeppni eldri borgara í Borgarbyggð og Akranesi
Eins og undanfarin ár hafa eldri borgarar á Akranesi og í Borgarbyggð att kappi í pútti. Hittust hóparnir þrívegis í sumar. Fyrsta keppnin fór fram á Garðavelli á Akranesi 23. júní. Staðarhaldari lagði til tvo 9 holu velli þó að rými sé fyrir tvo 18 holu velli. Leikið var í góðu veðri og framkvæmd heimamanna var þeim til sóma. Niðurstaðan var að Borgarbyggð vann með 20 högga mun.
Liðin hittust í annað sinn að Hamri í Borgarnesin 17. júlí. Vegna þess að veðurútlit var tvísýnt var tjaldað stóru tjaldi. Kom það sér vel því þegar fyrri umferðinni var að ljúka gerði ausandi rigninu í dágóða stund og vellirnir urðu eitt svað. Ekki var möguleiki að halda áfram við þessar aðstæður og því varð að hætta í miðju kafi. Er það í fyrsta skipti í sögu keppninnar sem ekki hefur verið hægt að ljúka henni. Hálfleikstölur voru því látnar gilda. Borgarbyggð vann með 8 höggum.
Fyrir nokkrum árum fór keppnin fram á þremur völlum og var völlurinn í Nesi í Reykholtsdal sá þriðji. Hann er nú ekki lengur til og undanfarin ár hefur því verið leikið tvisvar til skiptis á Garðavelli og Hamri. Sú hugmynd kom upp að leita til Snæfellinga og leika lokakeppnina í Stykkishólmi. Gera völl sem var 18 holu völlur á Landsmóti UMFÍ 50+ að 36 holu velli. Ríkharður Hrafnkelsson, formaður golfklúbbsins Mostra, tók vel í þá hugmynd. Því fóru þrír félagar úr pútthópnum vestur í Stykkishólm daginn fyrir keppnina með 18 stangir og holubotna og framkvæmdu hugmyndina. Lokakeppnin fór fram 7. ágúst og þar mættu tæplega 50 púttarar. Þar vann Borgarbyggð með tveimur höggum. Lokatölur eftir sumarið urðu: Borgarbyggð 1.184 högg Akranes 1.214 högg. Keppni um einstaklingsbikarinn var hörð en sigurvegari var Magnús E. Magnússon Borgarbyggð með 168 högg.
Næsta verkefni er Íslandsmót 60+ á Ísafirði föstudaginn 15. ágúst og lokamótið er hið árlega Septemberpútt 11. september en það fer alltaf fram annan fimmtudag í september.