Fréttir
Boðið var á akstur um Hvanneyrarstað. Stöðug eftirspurn var allan daginn og misstu menn töluna á fjölda ferða, en margar voru þær. Ljósmyndir: mm

Fjölmennasta Hvanneyrarhátíðin til þessa – myndasyrpa

Í gær fór árleg Hvanneyrarhátíð fram. Veðrið var með allra besta móti; hlýtt og glaða sólskin, og lögðu fjölmargir gestir leið sína á gamla skólastaðinn og nutu dagskrár og þess að hitta mann og annan. Áætlað er að ríflega tvö þúsund gestir hafi mætt. Bjarni Guðmundsson á Hvanneyri segir að hátíðin hafi haldið sínu yfirbragði frá upphafi þessa forms að vera mannamót óformlegheita þar sem Landbúnaðarsafnið, áður Búvélasafn, er grunnurinn, sem spunnið hefur verið í kringum af vaxandi fjölda ýmissa tengdra aðila. „Ekki síst má þar nefna Fergusonfélagið og öfluga liðsmenn þess sem lagt hafa safninu lið með stórvirkum og raunar einstökum hætti. Ég vona að ég móðgi engan þótt ég nefni þá sérstaklega - svo mikið og þakkarvert er framlag þeirra til þeirrar menningarvarðveislu; -fræðslu og -afþreyingar sem Landbúnaðarsafn hefur að hlutverki,“ skrifaði Bjarni að aflokinni hátíð.