
Myndin er tekin í þann mund sem slökkviliðsmenn réðust til inngöngu í brennandi húsið. Ljósmyndir: mm
Eldur kom upp í mannlausu húsi á Akranesi
Á tólfta tímanum í dag var Slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar kallað út á hæsta forgangi. Mikill eldur logaði þá í húsi við Akurgerði 13, á mótum Heiðargerðis og Akurgerðis. Slökkvilið var afar fljótt á staðinn og var fljótlega ráðist til inngöngu í húsið. Í ljós kom að húsið var mannlaust, en þrátt fyrir bágt ástand þess höfðu einhverjir haldið þar til undanfarnar vikur, samkvæmt heimildum Skessuhorns. Jens Heiðar Ragnarsson slökkviliðsstjóri segir að slökkvistarf hafi gengið mjög vel og fagnaði hann því hversu margir slökkviliðsmenn voru heima. Strax var hægt að staðreyna að enginn var í húsinu þegar eldurinn kom upp. Ennþá leynast glæður í þaki og segir Jens Heiðar að nú verði gengið í að slökkva í þeim.