Fréttir
Fjóla Ben við rásmarkið í dráttarvélafimi. Ljósm. úr safni/mm

Fjölbreytt Hvanneyrarhátíð um næstu helgi

Hin árlega Hvanneyrarhátíð verður haldin um næstu helgi. Hátíðin er grasrótarverkefni íbúa á Hvanneyri og nágrennis og er dagskrá hennar að vanda fjölbreytt. Hátíðin hefst á morgun en formleg setning hennar og þungi dagskrárinnar verður á laugardaginn. Á morgun verður haldið frisbígolfmót sem hefst kl. 17 á Frisbívellinum á Hvanneyri og kl. 20:30 hefjast í Hreppslaug tónleikar með söngkonunni Soffíu Björgu.

Formleg setning hátíðarinnar verður hins vegar á laugardaginn kl. 13:30 við kirkjutröppurnar á Hvanneyri. Að setningarathöfn lokinni rekur hver atburðurinn annan í dagskránni. Má þar nefna ljósmyndatöku í Frúargarðinum og leiðsögn um nýju sýninguna um Sögu laxveiða í Borgarfirði á Landbúnaðarsafni Íslands. Þá verður sýndur sláttur á Ferguson neðan við Kirkjuhól og kl. 14:30 hefst keppni í dráttarvélafimi og að sjálfsögðu verður gömlum dráttarvélum ekið um svæðið.

Ungt listafólk mun koma fram í kirkjunni kl. 15 og kl. 16:15. Kvenfélagið 19.júni verður með kaffisölu í Skemmunni frá kl. 13-16 og matar- og handverksmarkaður verður opinn á sama tíma í Halldórsfjósi og börnum verður boðið í kerruakstur. Þá verður matarvagn á svæðinu og félagar í Fornbílafjelagi Borgarfjarðar koma í heimsókn á stífbónuðum bílum sínum.  Er þá einungis fátt talið af fjölbreyttri dagskrá dagsins.

Götugrill íbúa hefjast síðan kl. 18 og dagskránni lýkur með brekkusöng sem hefst kl. 20. Veður mun ráða staðarvali brekkusöngsins.