Fréttir
Kýr í Ásgarði á átsvæðinu, skammt frá þeim stað sem óhappið varð 31. júlí síðastliðinn. Ljósm. mm

Sextán mjólkurkýr drápust vegna brennisteinsvetnismengunar

Síðdegis á fimmtudag í liðinni viku var Magnús Eggertsson bóndi í Ásgarði í Reykholtsdal að hræra upp í haughúsinu undir fjósinu en slíkt er gert til að hægt sé að dæla mykjunni upp og aka með hana á völlinn. Haughúsið hefur hann ætíð losað í júlí, en þó aldrei svona seint í mánuðinum. Kýrnar höfðu verið úti á túni um morguninn en voru komnar inn þegar þegar þetta var enda er mjaltaþjónn í fjósinu sem þær geta gengið í eftir þörfum. Í fjósinu voru 60 kýr og þar af 56 þeirra mjólkandi. Veðrið hafði verið ágætt fyrr um daginn, smávegis vindur en hlýtt. Svo um kaffileytið lygnir enn meira og hlýnar að sama skapi. Magnús kveðst hafa vera búinn að fylgjast vel með kúnum meðan hann hrærði í haughúsinu, þegar hann tekur eftir því að hópur er lagstur. „Fyrstu viðbrögð voru þau að drepa strax á traktornum svo hætti að hrærast í mykjunni, opna allar gáttir og kalla eftir aðstoð annars heimilisfólks. Undir engum kringumstæðum má fara inn í gripahús þegar svona gerist. Ég gríp þá vatnsslöngu og byrja að sprauta kröftugri bunu inn á gólfið til að freista þess að súrefnið í vatninu dragi úr eituráhrifunum. Þegar þarna er komið geri ég mér strax grein fyrir því að kýrnar voru að drepast,“ segir hann.