Íþróttir
Stoltir íslenskir keppendur. Einar Margeir lengst til vinstri á mynd.

Einar Margeir sáttur eftir gott heimsmeistaramót

Heimsmeistaramótinu í sundi lauk á mánudaginn. Einar Margeir Ágústsson frá Sundfélagi Akraness tók þar þátt ásamt fleiri keppendum frá Íslandi. „Einar átti virkilega góða frammistöðu í 50 metra bringusundi þar sem hann bætti sinn eigin persónulega tíma og einnig Akranesmetið. Hann synti á 27,89 sekúndum, sem er bæting frá fyrra metinu hans sem var 28,10 sek. Með því hafnaði hann í 41. sæti af sterkum alþjóðlegum keppendum,“ segir Kjell Wormdal þjálfari ÍA. Í 100 metra bringusundi náði Einar ekki alveg að smella saman öllum tæknilegum þáttum, en var engu að síður nálægt sínum besta tíma. Hann kom í mark á 1:01,63, sem dugði til að ná 37. sæti. Það skal tekið fram að samkeppnin á þessu stigi er mjög jöfn; aðeins um ein sekúnda skildi hann að frá 20. sæti.