Íþróttir
Verðlaunahafar í yngri flokkum ásamt Flemming.

Fjölmenni tók þátt í Flemming púttmótinu á Hvammstanga

Að þessu sinni fór Flemmingpúttmótið í golfi fram á Hvammstanga í blíðskapar veðri, sól og góðum hita undir lok júlí. Þátttaka var góð en alls voru 40 sem spiluðu og komu frá hinum ýmsu stöðum; Hvammstanga, Borgarbyggð, Akranesi, Mosfellsbæ, Reykjavík, Kópavogi og Garðabæ. Að venju var boðið upp á veitingar. Þetta er í fimmtánda sinn sem Flemming Jessen stendur að púttmóti á Hvammstanga, en fyrsta mótið fór fram árið 2011. „Þátttaka hefur ávallt verið góð, samt upp og niður, en stemningin verið frábær, því auk keppenda kemur alltaf góður hópur gesta og heimamanna sem fylgist með, spjallar og endurnýjar kynni við skólasystkini og vini. Einn þátttakenda, Eyrún Ingadóttir, kom færandi hendi til mótsstjóra og gaf í verðlaun ljóðabókina Upphafshögg, sem hún gaf út á síðasta ári. Þóra Einarsdóttir, sem lauk keppni á 75 höggum en tapaði í bráðabana fékk að launum ljóðabók Eyrúnar,“ segir Flemming í samtali við Skessuhorn.