
Mikil barátta framundan fyrir hagsmunum Íslands
Haraldur Benediktsson bæjarstjóri á Akranesi segir að verði niðurstaðan sú að verndartollar verði lagðir á islenskt kísiljárn sé opin leið fyrir Evrópusambandið að gera slíkt hið sama við flestar sjávarafurðir frá Íslandi og því sé málið ekki einvörðungu bundið við Elkem á Grundartanga og sveitarfélögin tvö, Akranes og Hvalfjarðarsveit. Fá mál stærri og hugsanlega afdrifaríkari hafi hann ekki séð á sínum ferli.
Í gær fóru sveitarstjórnarmenn á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit til fundar við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra vegna fyrirhugaðra tolla Evrópusambandins á kísiljárn frá löndum EES-svæðisins, Noregi og Íslandi.
Í samtali við Skessuhorn segir Haraldur Benediktsson bæjarstjóri á Akranesi að á fundinum hafi verið farið ítarlega yfir málið og ráðherra hafi verið kynntar ályktanir beggja sveitarstjórnanna í málinu.
Haraldur segir að hjá Akraneskaupstað hafi verið lögð mikil vinna í að greina málið allt frá því að fréttir bárust af því fyrir viku síðan. Eftir því sem fleiri atriði þess séu skoðuð þá sé það ljóst í sínum huga að röksemdafærsla Evrópusambandsins sé tæplega í samræmi við eðli og inntak EES-samningsins.
Því hafi á fundinum verið lögð sérstök áhersla á nokkra þætti þess og ráðuneytið sé sammála um að þau atriði séu hluti af röksemdum og málsvörn Íslands. Sem dæmi um sjónarmið Evrópusambandsins nefnir Haraldur að það telji að ekki sé hægt að undanskilja Ísland og Noreg frá álagningu tolla útfrá markaðshlutdeild þessara landa á tilteknum mörkuðum. Þar beri Evrópusambandið fyrir sig skuldbindingar á grunni alþjóðaviðskiptastofnunarinnar WTO. Hann telji að regluverk innri markaðarins og EES samningsins trompi slík sjónarmið. Sú túlkun sé grundvallaratriði í alvarleika málsins.
Hann telur að verði það niðurstaðan, að ekki sé hægt að undanskilja Noreg og Ísland, þá eigi slíkt einnig við um nokkurn fjölda iðn- og matvælafyrirtækja á Íslandi. Nefnir hann þar til sögunnar fiskafurðir, kalkþörungaframleiðslu, þörungamjölsframleiðslu og einnig gæti slíkt átt við um sérhæfða matvælaframleiðslu líkt og lifrarvinnslu. Í þeim greinum séu fyrirtæki sem hafa sterka stöðu á markaði og talsverða markaðshlutdeild líkt og kísilmálmsframleiðslan.
Haraldur segir skiljanlegt að Evrópusambandið berjist sem tollabandalag gegn undirboðum en sú barátta verði að snúa að þeim löndum sem stunda slík undirboð og Noregur og Ísland séu ekki í þeim hópi. Verði niðurstaðan sú að ekki sé hægt að undanskilja Noreg og Ísland frá álagningu tollanna opnist möguleiki á að leggja slíka tolla á þær afurðir sem áður voru nefndar.
Að mati Haraldar hefur einnig komið vel fram í vinnu undanfarinna daga að atlaga Evrópusambandsins að íslenskum og norskum hagsmunum sé óskiljanleg í ljósi stefnu sambandins sem byggir undir sjálfbærni svæðisns um nauðsynleg hráefni til iðnaðar. Að styrkja sína aðfangakeðju. Þá ekki síst á grunni nýlegrar stefnuáherslu á sviði varna og öryggismála um að gæta að getu sambandsins til að eflja varnarmátt sinn með því að hafa aðgengi að vöru og þjónustu til þeirra verkefna. Í sínum huga sé því framganga sambandsins og rökstuðningur óskiljanleg.
Haraldur segir að verið sé að brjóta EES samninginn og þetta sé líklega alvarlegasta milliríkjadeila á viðskiptasviðinu sem Ísland hefur lent í. Sjálfur EES samningurinn yrði stórkostlega laskaður og framtíð hans sett í algjört uppnám verði niðustaðan sú sem sveitarstjórnarmenn á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit óttast. Málið sé miklu stærra og alvarlegra en að það snerti aðeins byggð í þeim tveimur sveitarfélögum sem áttu þennan fund með ráðherra í gær. Ráðherra hafi lýst því yfir að EES-samningurinn yrði varinn og það sé mikilvæg og tímabær yfirlýsing.
Á fundinum með ráðherra var farið yfir störf utanríkisþjónustunnar að undanförnu og Haraldur segir að þar hafi verið unnin mjög góð og vönduð vinna. Vinnan sé umfangsmikil enda séu hagmunirnir sem undir liggi mjög miklir eins og áður segir. Á þessu stigi sé engin leið að sjá hver niðurstaða þessa flókna máls verður og ekki tímabært að spá fyrir um næstu skref. Það sé þó ljóst að mikil barátta sé framundan fyrir íslenskum hagsmunum. Málið sé það stærsta og mögulega þar afdrifaríkasta sem hann hafi komið að á undanförnum áratugum.