
Þingmenn Norðvesturkjördæmis funda með utanríkisráðherra á morgun
Þingmenn Norðvesturkjördæmis munu á morgun eiga fund með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra vegna fyrirætlana Evrópusambandsins um að leggja á verndartolla á kísiljárn frá Íslandi og Noregi. Líkt og komið hefur fram í fréttum myndu þeir tollar raska mjög samkeppnishæfni verksmiðju Elkem á Grundartanga. Líkt og kom fram í fréttum Skessuhorns á dögunum gætu áformin m.a. haft áhrif á fyrirhugað landeldi á laxi á Grundartanga.
Það var Ólafur Adolfsson fyrsti þingmaður kjördæmisins sem óskaði eftir fundinum með ráðherra strax eftir að fréttir birtust í fjölmiðlum um síðustu helgi af tollahugmyndunum.
Í samtali við Skessuhorn segir Ólafur mjög brýnt að þingmennirnir ræði við ráðherra þá alvarlegu stöðu sem nú er uppi. Ef af tollunum verði muni þeir hafa alvarlegar afleiðingar, ekki síst hjá starfsfólki fyrirtækisins og í nærumhverfi þess á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit. Þegar allt sé talið muni þetta, að mati Ólafs, snerta á fjórða hundrað fjölskyldur sem byggja afkomu sína á tekjum frá Elkem og fyrirtækjum sem sinni afleiddri þjónustu á Grundartangasvæðinu.
Aðspurður segir Ólafur að á fundinum með utanríkisráðherra verði þess óskað að ráðherra skýri stöðuna og hver næstu skref verði í samskiptum við Evrópusambandið. Einnig þurfi skýr svör um hvað lagt sé til grundvallar hagsmunagæslu Íslands í málinu og hvernig brugðist verði við verði tollarnir að veruleika.
Þá segir Ólafur að málið snúist ekki einvörðungu um Elkem heldur þá staðreynd að fyrirtækið hafi verið miðpunkturinn í ákveðinni nýsköpun, ekki síst í verkefnum sem tengjast nýtingu glatvarma til aukinnar verðmætasköpunar og orkuskipta líkt og kom meðal annars fram í fréttum Skessuhorns um mögulegt landeldi á laxi á Grundartanga. Því sé ekki hægt að horfa aðgerðarlaus á að framtíð þessa fyrirtækis og starfsemi í kringum það verði sett í uppnám vegna ákvarðana sem teknar eru innan Evrópusambandsins. Aðpurður hvort hann telji samstöðu í þingmannahópnum í þessu máli segir hann svo vera. „Við þingmenn Norðvesturkjördæmis erum samstíga. Við viljum tryggja þróttmikla starfsemi á Grundartanga, ekki síst fyrir fólkið, fjölskyldurnar og samfélagið á Vesturlandi.“ segi Ólafur Adolfsson að lokum.