Fréttir

Magnús Þór Sigmundsson mætir í Hallgrímskirkju

Á næstu Sumartónleikum í Hallgrímskirkju í Saurbæ mun Magnús Þór Sigmundsson, einn ástsælasta tónlistarmann þjóðarinnar, koma fram. Tónleikarnir verða sunnudaginn 27. júlí kl. 16. Magnús kemur með gítarinn og mun flytja lög sem spanna allan hans langa og glæsta feril, auk þess sem hann mun einnig syngja lög af nýrri plötu sinni, Ég lofa þig líf og frumflytja splunkunýtt lag fyrir tónleikagesti.

„Á tónleikunum munu hljóma perlur eins og Ísland er land þitt við ljóð Margrétar Jónsdóttur, Ást við ljóð Sigurðar Nordal og Þú átt mig ein, þar sem Magnús gerir einnig textann. Magnús hefur verið afar mikilvirkur á ferli sínum. Samstarf hans við Jóhann Helgason er væntanlega þekktast, en einnig má nefna hljómsveitina Árstíðir, dóttur Magnúsar Þórunni Antoníu og Lúðrasveit Þorlákshafnar. Lög hans hljóma á fleiri hundruð plötum og sérstaklega er eftirtektarvert hve Magnús hefur lagt mikið til tónlistar fyrir börn; en mikill fjöldi laga hans hefur verið saminn fyrir þau. Þetta er einstakt tækifæri til að njóta tónlistar þessa listamanns í þeim látlausa og einlæga búningi sem einkennir flutning Magnúsar Þórs Sigmundssonar,“ segir í tilkynningu.