
Einar Margeir mættur til Singapore
Einar Margeir Ágústsson, sundmaður frá Sundfélagi Akraness, er nú staddur í Singapore þar sem hann undirbýr sig fyrir heimsmeistaramótið í 50 metra laug, sem hefst á sunnudaginn. Íslenski landsliðshópurinn lagði af stað á föstudaginn og hófst ferðin með æfingu í Helsinki meðan beðið var eftir tengiflugi. Komið var til Singapore á laugardaginn og þar fara nú fram æfingabúðir í samstarfi við landslið Noregs, Svíþjóðar, Finnlands og Belgíu. „Ferðin veitir mikilvægt tækifæri til að aðlagast aðstæðum áður en mótið hefst. Mikil reynsla liggur að baki svona ferðalagi, en aðlögunin að átta klukkustunda tímamun ásamt miklum hita (30–32°C) og raka yfir 80%, getur haft áhrif á frammistöðu og því dýrmætt að hafa nokkra daga í aðlögun,“ segir Kjell Wormdal hjá ÍA sem er í þjálfarateymi sundfólksins ásamt Eyleifi Jóhannssyni yfirþjálfara, Dado Fenri Jasminuson og Hlyni Skagfjörð sjúkraþjálfara. Auk Einars Margeirs eru í landsliðshópnum þau Guðmundur Rafnsson (ÍRB), Birnir Freyr Halldórsson (SH), Jóhanna Elín Guðmundsdóttir (SH) og Snæfríður Sól Jórunnardóttir (Álaborg).