
Leirlistafélagið í leirferð um vestanvert landið
Um næstsíðustu helgi fékk Leirlistafélag Íslands heimsókn þriggja keramikera frá Þýskalandi. Það voru þær Grit, Daniela og Evelyn, en þær voru sérstaklega forvitnar um íslenskan leir. Félagar í Leirlistafélaginu tóku sig til og skipulögðu leir-ferðalag og Vesturland varð fyrir valinu. Ferðin lá fyrst í Bjarnarfjörðinn á sunnanverðum Ströndum þar sem fræðst var um leirinn sem þar er í jörðu. Næst var ferðinni heitið á Eiríksstaðahátíð þar sem frumstæð holubrennsla var framkvæmd. Fyrst var grafin hola, sag var sett í botninn og svo leirmunir ofan á sagið. Því næst sett timbur yfir og kveikt í þar til kol mynduðust. Kúaskítur frá Erpsstöðum og þari og rekaviður af Ströndum var settur ofan á, til að fá appelsínugula tóna í leirmunina, svo var holunni lokað með þökum. Þessu var leyft að malla í um 20 klukkutíma en þá var gáð að útkomunni. Þær stöllur voru ánægðar með afraksturinn, fallegir appelsínugulir, svartir og hvítir litatónar birtust í leirmununum. Á næsta ári fara félagar úr Leirlistafélagi Íslands í leir-ferðalag um Þýskaland.