
Þessi mynd var tekin rétt í þessu frá ritstjórnarskrifstofu Skessuhorns við Garðabraut á Akranesi. Handan mystursins er Akrafjall sem ekki sést einu sinni móta fyrir sökum mengunar.
Enn mikil mengun á höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi
Í nótt hefur eldgosið á Sundhnúksgígaröðinni áfram verið stöðugt og virkni enn í tveimur gígum. Nú í morgun mælist gasmengun brennisteinsdíoxíðar ásamt gosmóðu á suðvestur horninu. Brennisteinsdíoxíð (SO2) mælist í magni sem er óhollt fyrir viðkvæma einstaklinga á höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi. Samkvæmt heimildum Skessuhorns hafa íbúar á Akranesi margir fundið fyrir óþægindum í öndunarvegi og almennri vanlíðan síðustu daga. Rekja má það til slæmra loftgæða. Á það hefur verið bent að enginn loftgæðamælir er staðsettur á Akranesi og þykir nauðsynlegt að úr því verði bætt.