
Urðu Símamótsmeistarar 2025
Eins og við sögðum frá í frétt nýverið lauk Símamótinu í knattspyrnu um síðustu helgi. Mikið fjör var í Kópavogi þessa daga sem mótið stóð yfir. Fjöldinn allur af stelpum víðsvegar af landinu kom saman og öttu kappi á iðagrænum Kópavogsvelli og í Fagralundi. Mörg lið mættu af Vesturlandi og var ekki annað að sjá en að allir hafi skemmt sér vel og notið sín við knattspyrnuiðkun. Stelpurnar í 7. flokki ÍA undir stjórn Skarphéðins Magnússonar gerðu sér lítið fyrir og urðu Símamótsmeistarar 2025, en þær unnu alla leiki sína. Í úrslitaleiknum spiluðu þær við KFA í hörkuleik. Unnu leikinn 4-3 eftir að hafa lent 2-3 undir.