
Töfrandi harmonikkutónar á sumartónleikaröð í Saurbæ
Sumartónleikaröðin í Hallgrímskirkju í Saurbæ heldur áfram. Sunnudaginn 20. júlí kl. 16 er komið að Ástu Soffíu Þorgeirsdóttur harmonikkuleikara. Hún mun leika fjölbreytta efnisskrá, allt frá verkum eftir Bach til eigin útsetninga á sálmum, þjóðlögum og síðast en ekki síst tangóum! Ásta Soffía fékk sérstakan styrk úr Menningarsjóði Seðlabanka Íslands sem kenndur er við Jóhannes Nordal, til að leita uppi og rannsaka íslenska tangótónlist, en það er sérstakt markmið Ástu Soffíu að nýta hina fjölbreyttu hljómliti harmonikkunnar til að leika tónlist af ólíkum uppruna. Hún lærði á harmonikku í Tónlistarskóla Húsavíkur og síðan við Tónlistarskóla FÍH og Listaháskóla Íslands. Árið 2018 lauk hún BA prófi frá Tónlistarháskólanum í Osló og árið 2020 meistaranámi frá Tónlistarháskólanum í Freiburg.