Fréttir

Jörðin Munaðarnes í Borgarfirði til sölu

Það er almennt ekki fréttaefni þegar jarðir ganga kaupum og sölum. Þegar þekktar jarðir koma í sölu vekur það hins vegar athygli. Þegar í hlut á jörð sem í hugum flestra landsmanna stendur fyrir náttúrufegurð, veiðiréttindi og ekki síst sumardvöl í guðsgrænni náttúrunni vekur það athygli. Það á við þegar hin nafntogaða jörð Munaðarnes sem í Skessuhorni í dag er auglýst til sölu hjá Nes fasteignasölu í Borgarnesi. Munaðarnesjörðin er 366 hektarar að stærð og liggur meðfram bökkum Norðurár í Borgarfirði. Land jarðarinnar er að mestu kjarri vaxnir ásar með mýrarsundum á milli. Sumarbústaðahverfi hafa verið skipulögð á jörðinni og hvað þekktast er orlofshúsabyggð BSRB. Það hverfi og rekstur þess fylgir þó ekki jörðinni þar sem sá hluti var á sínum tíma seldur BSRB. Jörðinni fylgja nú 32 skipulagðar lóðir og eru 27 þeirra í útleigu. Þá fylgir jörðinni veiðiréttur í Norðurá ásamt hlutdeild í nýju veiðihúsi við Rjúpnaás og eru veiðitekjur án efa umtalsverðar. Þá fylgja jörðinni umtalsverði hitaréttindi. Jarðhiti er að hluta til nýttur í dag af Orkuveitu Reykjavíkur. Íbúðarhús er á jörðinni svo og eldra fjós og hlaða en búrekstur hefur ekki verið á jörðinni um árabil.