Fréttir
Bríet, elsta langömmubarn Steinunnar, við uppskerustörf ásamt langömmu sinni.

Í minningu Steinunnar J Eiríksdóttur í Langholti

Blikar sól um Borgarfjörð

birtast fagrar sýnir:

Fjallagnípur gil og skörð

gamlir vinir mínir

(Steinbjörn Vermundur Jónsson)

Steinunn Jóney Eiríksdóttir fæddist á Glitstöðum í Norðurárdal 26. október 1934. Hún var dóttir hjónanna Katrínar Jónsdóttur og Eiríks Þorsteinssonar, næst yngst fimm systra, sem allar voru fæddar þar nema Þórunn, Tóta sem kom með fjölskyldunni til Glitstaða á fardögum 1928 úr Þverárhlíðinni, þar sem foreldrarnir bjuggu áður, ásamt foreldrum Katrínar. Leiðin lá þá frá Hamri, þar sem foreldrar Eiríks bjuggu og lá yfir hálsinn. Á Glitstöðum voru svo æskan, gleði glaumurinn og veganesti þess sem koma skal. Auk þeirra fimm systra er Svava, sem er ekki skyld þeim, kom með langömmu sinni fyrir góðan vinskap ömmu sinnar við Katrínu og er þeim sem ein systirin. Systurnar frá Glitstöðum voru afar ánægðar með sína æsku og uppvöxt. Vel var að öllu búið og nóg af ævintýrum. Gnótt matar. Systurnar rifjuðu reglulega upp margar minningar. Guðrún, Rúna, elskuleg systir Steinunnar er ein eftirlifandi fjögurra systra Steinunnar. Þær fóru fyrst, Þórunn og Auður, svo Áslaug, og nú Steinunn, en Rúna og Svava muna enn þessa tíð.

Steinunn gekk í barnaskóla í Norðurárdal, skólahúsið stendur þar enn, við vegamótin að Bröttubrekku, við Dalsmynni, það er hinum megin árinnar og skólagangan því ævintýralegt ferðalag hverju sinni, löng ganga og bátsferð. Steinunn var síðan þrjá vetur í Héraðsskólanum í Reykholti þar sem hún tók landspróf og starfaði síðan um tíma fyrir skógræktina og Samvinnuskólann á Bifröst. Hún átti marga góða vini og vinkonur frá sínum æskuárum.

Steinunn giftist 13. apríl 1963 eftirlifandi manni sínum, Jóni Blöndal, frá Laugarholti í Bæjarsveit. Þau reistu hús á Laugarhólnum, við hliðina á húsi tengdaforeldranna. Þegar hér var komið við sögu voru þau bæði fædd, á Glitstöðum, börn þeirra hjóna, Björn, (f. 1959) og Katrín, (f. 1961). Nýbýlið var nefnt Langholt. Þau bjuggu lengi félagsbúi með Sveinbirni bróður Jóns. Svo fæddist Elín (f. 1966) og Eiríkur (f. 1970).  Barnabörnin urðu ellefu og barnabarnabörnin eru nú átta. Foreldrar Jóns bjuggu á bænum og lífshlaup þeirra fléttaðist inn í tilveruna eins og gengur. Steinunn annaðist tengdaforeldra sína Jórunni og Björn vel á efri árum og notaði hvert tækifæri til að heimsækja foreldra sína á Glitstöðum sem um árabil bjuggu hjá Auði systur hennar og hennar manni Sigurjóni Valdimarssyni.

Steinunn var eftirsótt til trúnaðarstarfa, en tranaði sér þó aldrei fram. Hún var formaður sóknarnefndar Bæjarkirkju um árabil, í stjórn Kvenfélagsins 19. júní, formaður kvenfélagsins um tíma, félagskona þar í um 60 ár og heiðursfélagi. Hún var um árabil virkur þátttakandi í Leikdeild Ungmennafélagsins Íslendings. Hún ásamt fleiri konum í sveitinni og íbúum öllum gekkst fyrir lagningu vatnsveitu sem var þá stórvirki, en kalt neysluvatn var mjög af skornum skammti í Bæjarsveit þó af heitu vatni væri þar gnægt. Hún var hvatamaður ásamt sveitungum sínum að byggingu sundlaugar við Brún.  Hún var í kirkjukórnum og Freyjukórnum um tíma.  Hún var í skólanefnd Reykholtsskóla nokkur ár. Á seinni árum tók hún virkan þátt í starfi Félags aldraðra unglinga í Borgarfjarðardölum og var það henni mjög mikilvægur félagsskapur. Hverskonar hannyrðir voru henni tamar frá barnæsku, en í seinni tíð lagði hún sérlega rækt við útskurð og gerð ýmissa hluta af þjóðlegri gerð. 

Steinunni var tamt að sjá tækifærin fremur en takmarkanirnar. Hún tók við gróðurhúsaræktun tengdaföður síns og ræktaði gúrkur, tómata og fleira um árabil, og rófur svo dæmi séu tekin.  Hún tók á móti hópum erlendra ferðamanna, gaf þeim að borða af þjóðlegum sið.  Til dæmis kjötsúpu, heimabakað rúgbrauð með kæfu og flatkökur að hætti Glitstaða með osti eða reyktum laxi, kleinur og smákökur á eftir. Allt fram reitt fyrir heilu rúturnar, inni á heimilinu.

Hún hafði unun af ljóðum og skáldskap, las allt sem í boði var og lagði á sjálfstætt mat.  Hún var þátttakandi í ljóðaklúbbi um tíma sem hittist til að ræða skáldlist. Hún hafði líka unun af mynd- og leirlist. Safnaði og keypti myndir og muni sem veittu henni ómælda ánægju fram til síðasta dags en safnaði líka steinum og sá í þeim menn og kynjaverur. Hún hafði sérstakan eiginleika til að tengja ljóð við aðstæður, eða umhverfi, var náttúrubarn.  Hún og systur hennar hafa skráð fjölmargt niður frá fyrri tíð á fallegan og lýsandi hátt.  Eftirfarandi ljóðalýsingu, sem flokkast sem „örsaga eða ljóð“ gerði hún eftir minningu úr æsku. Til skýringar á örsögunni þarf að fylgja að á Glitstöðum var alltaf gnægð mjólkurmatar og auk hefðbundins skyrs, rjóma og smjörs framleiddur mysuostur, mysan þurfti að malla í pottinum lengi dags, en var svo bragðbætt með rjóma og sykri.

Í Eldhúsinu.

Mysuosturinn sauð og sauð

Senn varð hann nógu þykkur

Stutta og miðstelpan áttu að gæta þess að ekki brynni við.

Milli íhræranna var brugðið á leik, æfður hringdans,

En æ – gúmmískórinn flaug af fæti

Ofaní pottinn! – óttalegt slys!

Var samt veiddur upp og þrifinn

En samviskan nagaði telputötrin

Varla þó lengur en osturinn entist.

Já, það er fólk sem treður og það er fólk sem fetar. Systurnar á Glitstöðum tróðu, þær ruddu braut okkar hinna. Við fetum í fótsporin, nýtum okkur tækifærin, sem þær og fleira gott fólk hefur skapað okkur. Fyrirmyndir, eða áhrifavaldar heitir þetta kannski á nútímamáli.  Fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá, sagði Davíð Stefánsson, en börn Glitstaðasystra og barnabörn skilja hvað við er átt.

Steinunn hafði sérstaka ánægju af íslensku máli, hverskonar spilum og þrautum. Orð og orðalist voru henni tamar íþróttir. Þær systur, hún og Rúna, réðu krossgátur Morgunblaðsins saman fram á þetta vor. Geri aðrir betur. Við þungum hjartaverkjum beitti hún, auk nútímalyfja, sudoku, mjólk og kexi langar nætur síðustu árin. Steinunn gerði ekki miklar kröfur til sjálfs síns og var ekki margmál um það sem hún tók sér fyrir hendur. Hún lét verkin tala. Þegar kom að umræðu um útför sína, gerði hún ekki heldur miklar kröfur.  Nokkrir sálmar voru henni kærir, sem hún skrifaði á blað ásamt spakmælinu, „Meiri söngur, minna mas.“

Steinunn var með hjartasjúkdóm á efri árum.  Með tímanum þyngdist sá sjúkdómur.  Síðasta dag marsmánaðar síðastliðinn lagðist hún inn á sjúkrahúsið á Akranesi eftir að hafa heimsótt sinn ágæta hjartalækni Þórarinn Guðnason, en hann réði henni ávallt heilt í glímu þessari.  Hún var nokkra daga á Akranesi, en þráði þá að komast í Brákarhlíð sem hún taldi alltaf góðan stað. Heilsu hennar hrakaði hins vegar mjög hratt þær vikur sem liðu svo og hún lést á heimilinu að morgni dags 8. júlí síðastliðinn.  Var öllum ljóst, líka henni, hvert stefndi.  Seint kvöldið áður, sagði hún við son sinn, þjökuð af verkjum: „Þetta gengur ekki – nú skalt þú fara heim að sofa, ég get alveg sofnað sjálf.“

Við þessi tímamót viljum við koma á framfæri innilegu þakklæti til starfsfólks Brákarhlíðar og heilsugæslunnar í Borgarnesi fyrir góða umönnun við krefjandi kringumstæður.  Heimilisfólki Brákarhlíðar viljum við þakka hlýja viðkynningu.

Útför fer fram frá Reykholtskirkju í dag, miðvikudag, klukkan 14.

Eiríkur og Sigurbjörg Jaðri

Norðurárdalur, mynd tekið af Krosshólma.

Hluti veislugesta í afmælisveislu sem haldin var á félagsfundi Félags aldraðra unglinga í Borgarfjarðardölum í Brún, í tilefni 90 ára afmælis í október sl. Frá vinstri: Guðmundur Ragnarson tengdasonur, Sigurbjörg Ósk Áskelsdóttir tengdadóttir, Eiríkur Blöndal sonur, Stella Dögg Blöndal barnabarn, Steinunn Bjarnveig Blöndal barnabarn, Steinunn Eiríksdóttir afmælisbarn, Sigurjón Valdimarsson Glitstöðum eftirlifandi maður Katrínar Auðar (Auu) systur Steinunnar, Katrín Blöndal dóttir, Viðar Guðmundsson barnabarn Þórunnar (Tótu á Kaðalstöðum) systur Steinunnar og Jón Björn Blöndal barnabarn.  Ljósm. Ágúst Elí Ágústsson.

Steinunn Jóney Eiríksdóttir (1934-2025)

Í minningu Steinunnar J Eiríksdóttur í Langholti - Skessuhorn