
Mynd tekin af gosinu í morgun. Ljósm. LHG
Eldgos hófst á Reykjanesi í nótt
Kvikuhlaup hófst skömmu fyrir miðnætti á Sundhnúksgígaröðinni á Reykjanesi, en klukkan 23:55 hófst áköf skjálftahrina og mældist mikill fjöldi skjálfta næstu fjóra tímana. Borholugögn og ljósleiðari sýndu skýr merki um kvikuhlaup sem lauk með því að sprunga opnaðist og gos hófst skömmu fyrir klukkan fjögur í nótt. Sprungan var nú í morgun hátt í tveggja kílómetra löng en hún opnaðist milli Hagafells og Stóra-Skógfells. Kvikan rennur til suðausturs og er ekki talin ógna innviðum. Loftmengun frá gosinu er þó talsverð og leggur mökkinn yfir byggð í Vogum og Njarðvík þar sem íbúar eru hvattir til að hafa glugga lokaða.