Fréttir

Systur við veiðar á Arnarstapa

Systurnar María Erla og Bríet Brynjarsdætur ferðast mikið um Snæfellsnes á sumrin með sínu fólki. Þá er nauðsynlegt að koma við á höfninni á Arnarstapa. María Erla er 8 ára og vön veiðikló og var fyrst allra í fjölskyldunni til að setja í fisk; flottan þorsk sem beit á í hennar fyrsta kasti. Beitan að þessu sinni var kjúklingaskinka frá Ali sem gaf vel. Systir hennar Bríet 6 ára var hins vegar í sinni fyrstu veiðiferð en var ekki í vandræðum með að draga sinn fyrsta fisk að landi alveg sjálf, en var frekar smeyk við að láta mynda sig með honum; vildi koma honum sem fyrst aftur í sjóinn. Þær tóku svo nokkra fiska í viðbót og líka marhnúta sem voru talsvert þyngri. Gleðin var fölskvalaus og þær komnar á bragðið í veiðidellunni enda er nú þegar búið að panta að fara sem fyrst á bryggjuveiðar.

Systur við veiðar á Arnarstapa - Skessuhorn