Fréttir
Sturla bjó lengi á Staðarhóli í Saurbæ. Hér sést yfir Staðarhólsdal og í forgrunni er minnismerki um Sturlu, Stein Steinarr og Stefán frá Hvítadal, sem allir bjuggu í sveitinni í lengri eða skemmri tíma.

Sturluhátíð framundan í Tjarnarlundi

Hin árlega Sturluhátíð, kennd við sagnaritarann mikla Sturlu Þórðarson, verður haldin annars vegar á Staðarhóli og hins vegar í félagsheimilinu Tjarnarlundi í Saurbæ í Dölum, laugardaginn 12. júlí nk. Hátíðin hefst kl. 14 á Staðarhóli þar sem stóð bær Sturlu Þórðarsonar. Sturlunefndin hefur haft forgöngu um að setja þar upp söguskilti og hafa þau að geyma margvíslegan fróðleik sem í senn tengist sögu staðarins en umfram allt auðvitað Sturlungu. „Að þessu sinni munum við afhjúpa síðasta skiltið sem nefndin hefur haft forgöngu um að láta gera. Gengið verður um Staðarhólinn ásamt fróðu fólki um söguna, og litast um nágrennið frá sjónarhóli sagnaritarans mikla,“ segir Einar K Guðfinnson formaður Sturlunefndar.

Sturluhátíð framundan í Tjarnarlundi - Skessuhorn