Fréttir
Guðmundur Kristjánsson hefur marga fjöruna sopið á lífsleiðinni. Hann ólst upp við að hjálpa til í fiskvinnslu pabba síns og fótboltinn dró hann út til Bandaríkjanna í nám. Hann var svo kallaður heim til að kljást við kvótakerfið. Guðmundur hefur farið víða, en gleymir aldrei upprunanum í Rifi.

“Ég var alinn upp við það að vinna”

Rætt var við Guðmund Kristjánsson um uppvaxtarárin í Rifi, sjávarútveginn og þjóðina, ferilinn og fótbolta. Viðtalið birtist í Jólablaði Skessuhorns - en í heild sinni einnig hér

Í jólablaði síðasta Skessuhorns, sem kom út 19. desember 2024 birtist afar áhugavert viðtal við Guðmund Kristjánsson frá Rifi, forstjóra Brims og fráfarandi formann SFS. Þar segir hann frá sínum uppvexti og hvernig hann byggði að þeim grunni sem starf hans er í dag. Guðmundur sagði nýlega af sér formennsku í SFS eftir tveggja mánaða stjórnarsetu. Skessuhorn birtir hér í opinni færslu viðtalið í heild sinni frá síðasta jólablaði. Það skráði Kolbeinn Óttarsson Proppé blaðamaður.

Guðmund Kristjánsson þarf vart að kynna. Hann er í dag forstjóri Brims hf, eins stærsta sjávarútvegsfyrirtækis landsins, og hefur marga fjöruna sopið þegar kemur að sjávarútvegi. Hann ólst enda upp í fjörunni í Rifi og vandist því ungur að hjálpa föður sínum, Kristjáni Guðmundssyni, í fiskverkun hans. Það er því ekki úr vegi að spyrja hvort hann hefði, sem ungur drengur á bryggjunni í Rifi, séð fyrir sér hvað úr honum ætti að verða?

„Nei, maður hugsaði ekki svona langt. Maður var sáttur ef maður fékk að fara í fótbolta. Ég hafði gaman af því að spila fótbolta og spilaði með Víkingi Ólafsvík. Þegar ég var 15 ára kom Ásgeir Elíasson, stórkanóna og Framari úr Reykjavík, og þjálfaði okkur. Við í Víkingi höfðum aldrei farið á Íslandsmót í þriðja flokki og hann fór með okkur beint í úrslitaleikinn. Við töpuðum honum reyndar fyrir Breiðabliki, en margir af þeim sem við kepptum við urðu seinna atvinnumenn og landsliðsmenn, en þetta var gaman,“ segir Guðmundur.

Fótboltasögu hans lauk ekki þar, því hann fór á vertíð í Þorbirninum í Grindavík 21 árs gamall og bjó þar á verbúðinni fram undir haustið. Hann fór að æfa með Grindavík og spilaði með liðinu um sumarið og endaði á því að vera kjörinn besti knattspyrnumaður Grindavíkur það árið. Það leiddi hann til Vals veturinn eftir, sem á endanum leiddi hann til náms á fótboltastyrk Rockford Collage í Illinois í Bandaríkjunum, þar sem hann lærði viðskiptafræði en því námi lauk hann í Salem State Collage í Massachusetts.

Fiskur og fótbolti

Eftir grunnskólanám á Hellissandi dvaldi hann einn vetur í heimavistarskólanum i Reykholti í Borgarfirði og fór síðan í Versló og var þar í tvo vetur. „Ég var ekki mikill námsmaður, mér fannst betra að vera að vinna heima í Rifi. Eftir Versló þegar ég var 18 ára réði ég mig á vertíðarbátinn Tjald SH frá Rifi. Byrjaði á netavertíð um vorið og um haustið fór báturinn á línu og ég fór þá að beita og sigldum við með aflann til Englands, og einnig fór ég á netabátinn Brimnes sem sigldi sömuleiðis með aflann til Bretlands.

Þegar ég var að fylgjast með löndun úr bátunum í Hull og Fleetwood fannst mér óþægilegt að geta ekki talað við löndunarkarlana því ég kunni ekki ensku. Ég fór því til Hastings veturinn eftir og lærði ensku í hálft ár. Fékk ég að æfa og spila fótbolta með Hasting Town FC þann vetur.  Ég kom heim um sumarið og fór að vinna í fiskverkun hjá pabba og var að landa úr vertíðarbátum og trillum, vann einnig á hausaranum og við að handfletja.

Ég hef alltaf haft gaman af útgerð og sjávarútvegi. Sjórinn er náttúrulega á þrjá vegu í Rifi, þannig að maður kynnist sjónum vel þó ég hafi ekki mikið verið á sjó. En svo fór námsgleðin að gera vart við sig upp úr tvítugu og eftir það fannst mér gaman að læra.“

Haustið 1981 fór Guðmundur í Tækniskólann þegar hann sá auglýst nám í útgerðartækni. Eftir haustönnina skellti hann sér á vertíð í Grindavík og bjó þar á verðbúðinni, eins og áður var getið, fram á haust þegar hann hóf aftur nám í útgerðartækni.

„Ég kláraði útgerðartæknina um vorið og fór svo til Bandaríkjanna um sumarið. Fór að spila fótbolta. Endaði þrjú ár í Bandaríkjunum og ætlaði aldrei að koma heim. Svo var það út af þessu kvótakerfi sem mamma fékk mig til að koma heim. Ég fór svo aldrei út aftur, eins og ég ætlaði.“

Guðmundur og Hjálmar Kristjánssynir. Guðmundur segir að á sínum tíma hafi sumir verið hvekktir yfir því að strákar frá Rifi væru að kaupa Útgerðarfélag Akureyringa. Ljósm. mm

Ósanngjarnt kvótakerfi

Já, það var kvótakerfið sem kallaði Guðmund heim og segja má að hann hafi festst í því kerfi. Það er kaldhæðni örlaganna, því Guðmundi fannst kerfið gríðarlega óréttlátt þegar því var komið á fót. „Ég hef oft hugsað það af hverju ég var svona harður í að kaupa og selja kvóta í kvótakerfinu á árunum eftir að framsalinu var komið á. Á þessum árum var ég náttúrulega ungur og mér fannst úthlutunin ekki réttlát í upphafi því að veiðirétturinn fór á fiskiskipin, ekki fiskvinnslurnar og ekki þorpin.

Þeir sem áttu stóru skuttogarana

„Á þessum árum komu margir vertíðarbátar af Norðurlandi til veiða í Breiðafirði og var fiskurinn unninn í fiskvinnslunni hjá pabba og skapaði atvinnu í plássinu. Á árinu1988 var sjórinn kaldur í Breiðafirði svo að veiði þar var lítil og vertíðarbátarnir létu varla sjá sig. Þá stóðum við í Rifi uppi með lítinn veiðirétt, þó svo við værum nálægt þessum fengsælu miðum. Stærsta útgerðin heima, Skarðsvíkin, hefði getað keypt skuttogara 1972, en ákvað að kaupa loðnubát sem var einnig á netum á vertíðum. Loðnubátarnir fóru tiltölulega illa út úr upphaflegri kvótaúthlutun. Stærstu aðilarnir sem fengu mesta úthlutun í veiðirétti voru bæjarútgerðirnar í Reykjavík, Akureyri og Hafnarfirði og einnig ríkisfyrirtækið Þormóður rammi sem öll höfðu fengið skuttogara frá ríkinu áratugnum á undan á vildarkjörum. Ég hafði því aldrei samúð með þeim sem fengu veiðiréttinn í upphafi.“

Kristján, faðir Guðmundar, gerði út vertíðarbátinn Tjald og var með fiskverkun og var Hjálmar bróðir hans kominn heim úr námi í Fiskvinnsluskólanum og sá um fiskverkunina. Tjaldur var hefðbundinn vertíðarbátur og var skráður í sóknarmarkskerfið.  „Sóknarmarkið var hannað fyrir togveiðarfæri, ekki neta- eða línubáta. Það var þannig að þú gast veitt miklu meira af aukategundunum, þ.e. öðrum tegundum en þorski. Þannig var hægt að auka við kvótann. Ef þú hins vegar veiddir ekki aukategundirnar í sóknarmarkinu, þá tapaðirðu kvótanum. Við völdum sóknarmark og svo fór báturinn í slipp í Bátalóni í Hafnarfirði eftir vertíð árið 1986 þar sem skipta átti um brú. Það verk dróst.

Fyrsta verkefnið mitt þegar ég kom heim frá Bandaríkjunum haustið 1986 var að vinna í Bátalóni og reyna að flýta því að skipið kæmist aftur á flot. Það náðist ekki fyrr en í desember og því náðum við ekki að veiða upp í kvótann. Og því töpuðum við veiðiheimildum á því ári. Ég sá þarna að við töpuðum miklum kvóta því við völdum rangt kerfi. Og var það dýrmæt lexía fyrir mig.“

Heilsað upp á páfann. Árið 2011 fór sendinefnd Snæfellinga á fund páfa og afhenti honum afsteypu af verki Ásmundar Sveinssonar af Guðríði Þorbjarnardóttur.

Kvótakaup eða Bandaríkin

Þetta var í árdaga kvótakerfisins og margir trúðu því að kerfið yrði ekki langlíft og því var það ekki sjálfsagt fyrir einföld fjölskyldufyrirtæki að leggja út í miklar fjárfestingar til að kaupa skip og kvóta. Árið 1988 sá Guðmundur að annað hvort þyrfti að hrökkva eða stökkva. Það væri bara tvennt í boði. „Annað hvort kaupum við kvótann eða ég er farinn til Bandaríkjanna aftur, sagði ég við fjölskylduna. Þá stofnuðum við hlutafélag, ég, pabbi, Hjálmar, mamma og systir okkar. Á þessum tíma var alltaf verið að vara við því að taka lán til að kaupa kvóta og skip. Alþingismenn voru á meðal þeirra sem sögðu að kvótakerfið gæti verið tekið af og þá sætu fyrirtækin uppi með skuldir. Og þeir sem höfðu selt skipin og kvótann ættu þá nógan pening og gætu keypt allt aftur. En ég lokaði bara augunum og sagði að það væri ekkert hægt að hugsa svona.“

Ýmsir hugsuðu svona, til dæmis Vestfirðingar. „Já, af því að Alþingismennirnir sögðu það við þau. En ég las lögin. Ég elskaði bókasöfnin í Ameríku þegar ég var þar í háskóla. Ég settist niður og las fiskveiðilögin. Þar stóð að búið væri að útdeila veiðiréttinum. Kristján Ragnarsson, sem var framkvæmdastjóri LÍÚ og Halldór Ásgrímsson, þáverandi sjávarútvegsráðherra, sögðu það líka skýrt við mig: „Guðmundur, þú fæddist bara of seint. Það er búið að útdeila kvótanum og honum verður ekkert útdeilt aftur. Þú verður bara að kaupa hann.“ Það hefur alveg staðist.“

Þreyttir eftir vinnu. Bræðurnir kasta sér í hádeginu.

Eign samkvæmt Hæstarétti

Guðmundur rifjar upp að þegar kvótakerfinu var komið á hafi fiskistofnar verið mjög lélegir og útgerðin verið á hausnum. Ekkert verðmæti lá í kvótanum, en hann var hins vegar bundinn við skip. „Ríki, sveitarfélög, hlutafélög og einstaklingar áttu og ráku skipin. Þarna vorum við með útgerðir í eigu bæjarfélaganna, Bæjarútgerð Reykjavíkur, Bæjarútgerð Hafnarfjarðar og Útgerðarfélag Akureyringa, einnig einkahlutafélög á borð Ísbjörninn, Ögurvík og Harald Böðvarsson og fleiri. Heima fyrir vestan á Snæfellsnesi og víða annars staðar vor það síðan einstaklingar og fjölskuldufyrirtæki sem ráku útgerðir eins og hjá pabba.

Á árinu 1990 gerist það að við máttum kaupa fleiri en eitt skip, taka veiðiréttinn af og selja skipið í brotajárn. Þá gjaldfærðum við mismuninn, við keyptum skip t.d. á 100 milljónir, seldum það á 20, þá töpuðum við 80 milljónum og þurftum þá ekki að borga tekjuskatt. En þá kom ríkisskattstjóri og sagði: „Nei! Þetta er eign.“  Við sögðum alltaf að þetta væri ekki eign, í okkar huga var veiðirétturinn ekki auðlindin og að við gætum ekki eignfært fiskinn í sjónum. Fiskurinn á sig sjálfur, sögðum við alltaf. En ríkisskattstjóri fór með þetta málefni fyrir Hæstarétti árið 1993 og hafði betur,“ segir Guðmundur. Það þýðir að samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar ber útgerðum að eignfæra veiðiréttinn og samkvæmt úrskurðinum mátti afskrifa hann á fimm árum.

„Alþingi ákvað síðan 1997 að veiðirétturinn væri varanleg eign. Það væri best fyrir þjóðina, því þá væru minnstar líkur á því að skipstjórar og útgerðir ofveiddu fiskistofnana af því að þeir hefðu beina hagsmuni af því að ganga vel um stofnana. Margir voru svo hræddir við láta opinbera ráðamenn eina ráða heildarkvóta og umgengni við auðlindina því eins og við þekkjum annars staðar frá hefur það farið illa. Síðan hefur engu verið breytt í fiskveiðistjórnakerfinu, nema þegar veiðigjöldin voru hækkuð mikið 2010-14. Í dag sé ég að þetta var skynsamleg ákvörðun að veiðirétturinn sé eign sjávarútvegsfyrirtækjanna í gegnum fiskiskipin sem í framhaldi styrki efnahagsreikning þeirra og auðveldi þeim að fjármagna kaup á nýjum veiðskipum og nýrri tækni og að fjárfesta í framtíðinni.“

Fyrirtækinu skipt upp

Árið 1992 komu tveir línubátar í Rif, sem Guðmundur og fjölskylda höfðu látið smíða í Noregi. „Þá sögðu nú allir að maður færi á hausinn og færi líka með kallinn hann pabba á hausinn. Við áttum lítinn kvóta og það vildi enginn lána pening í kvóta, en við gátum fengið lánaðan pening í nýtt skip, fengið lánað í stál. Svo gerum við þessa línubáta út og Hjálmar bróðir gerir annan þeirra enn út, hann heitir Tjaldur og er bara fínn.“

Árið 1995 flutti Guðmundur til Reykjavíkur, en var svo einn vetur í Frakklandi 1997-8, eiginlega heimavinnandi húsmóðir, eins og hann orðar það sjálfur. „Svo splittum við upp fyrirtækinu okkar 1998, þá stofnum við þrjú fyrirtæki; KG fiskverkun, Útgerðarfélag Reykjavíkur og KG hf. Ég eignast mitt félag í Reykjavík, Hjálmar sitt í Rifi og svo áttum við eitt félag saman,“ segir Guðmundur, en Útgerðarfélag Reykjavíkur sem er félag hans í dag, hefur áður heitið ýmsum nöfnum; Hnjúkur, Tjaldur og Brim, áður en nafnið Brim færðist á það félag sem það á í dag.

Með Rebekku dóttur sinni í hestaferð.

Tók umræðu nærri sér

Kvótakerfið og málefni sjávarútvegs vekja gjarnan upp mikil viðbrögð í umræðunni. Raunar er leitun að fólki sem ekki hefur skoðun á kvótakerfinu, hvort sem hún byggir á fyrirsögnum blaða eða umfangsmikilli þekkingu. Umræðan hefur oft verið býsna óvægin og Guðmundur hefur ekki farið varhluta af því. „Ein ástæðan fyrir því að ég flutti frá Rifi 1995, var sú að mér fannst ég vera orðinn of stór í þessu litla sveitarfélagi. Það voru 150 manns í Rifi og 400 manns á Hellissandi. Það er oft óþægilegt að vera orðinn of stór í samfélögum. Umræðan í litlum sveitarfélögum er oft óvægin. Í dag er ég orðinn alveg brynjaður fyrir þessu, en manni fannst þetta óþægilegt.

Ég tók þetta svolítið nærri mér. Ég var alinn upp við það að vinna. Mamma sagði alltaf við okkur Hjálmar að við yrðum að fara niður í fiskverkun til að hjálpa pabba. Ekki til að vinna, heldur til að hjálpa pabba. Hún rak þetta bara eins og bændabýli. Hún kom úr sveit, af fátæku fólki, en þau þurftu að vinna og koma sér fyrir. Föðurafi minn var bóndi og verkamaður í Stykkishólmi. Pabbi hættir í skóla í kringum 14 ára aldur og fer að vinna. Svo fer hann seinna meir í Stýrimannaskólann og er þar í tvo vetur. Er svo á sjó og verður skipstjóri mjög fljótt. Kaupir svo sinn eigin bát og byrjar að gera út frá Stykkishólmi árið 1956 og fer svo að gera út frá Rifi, flytur þangað 1959 og þar fæðist ég 1960. Ég elst því bara upp í þessu.

Mér líkaði aldrei vel hvernig umræðan var í samfélaginu. Kvótagreifar og allt þetta. Pabbi, bræðurnir Sævar og Nonni í Rifi, Siggi á Skarðsvíkinni, Rögnvaldur með HH á Hellissandi,  Guðmundur Jens í Bakka, Víglundur í Hróa, Stakkholtsbræður í Ólafsvík og Guðmundur Run og Soffi í Grundarfirði og miklu fleiri útgerðarmenn og fiskverkendur á Snæfellsnesi; allt í einu voru allir þessir kallar kallaðir kvótagreifar hér í Reykjavík. Þeir höfðu m.a.s. barist á móti kerfinu, vildu m.a. að hluti kvótans yrði bundinn við fiskvinnslurnar, en Alþingi réð þessu náttúrlega, þessir 32 plús sem mynda meirihluta.

Margir af mínum félögum seldu af því að þeir þoldu ekki umræðuna um þetta. Þeir voru bornir miklum sökum og það endaði á því að þeir gáfust upp. Þoldu þetta ekki, sérstaklega ættingjarnir. Þeir höfðu engan áhuga á að feta í fótspor feðranna. Þannig að ég fór bara suður og langaði bara að vera í Reykjavík í fjöldanum. Ég hef þó alltaf hugsað hlýlega til Rifs.“

Guðmundur fór á Old Trafford með Gylfa Scheving, guðföður fótboltans í Ólafsvík.

Þjóðin og ríkið ekki það sama

Guðmundur hefur áhyggjur af þeirri gjá sem hefur myndast í umræðu um sjávarútveg. Alþingi hafi sett lögin og markmið þeirra hafi verið skýr; að búa til verðmæti inn í þjóðfélagið og tryggja að fiskistofnar verði ekki ofveiddir. Það hefur tekist þokkalega, en síður hafi tekist að upplýsa þjóðina, fólkið í landinu, um hvernig fiskveiðistjórnarkerfið virkar.

„Mér finnst fólk í dag rugla saman þjóðinni og ríkinu. Ríkið er stofnun, eða eining, sem við viljum að sjái um ákveðna þætti samfélagsins sem er best að reka sameiginlega; vegir, hafnir, orkan, menntamál, heilsugæsla, löggæslu, heilbrigðismál. Við búum til einingu sem þjónar almenningi og sér um þetta, af því að það er hagkvæmara fyrir heildina. En það er ekki gott að láta alla framleiðsluþætti og verðmætasköpun í landinu undir ríkið, eða undir þessi tólf ráðuneyti sem við höfum í dag.

Þjóðin er síðan 383 þúsund einstaklingar. Þessir einstaklingar eiga fasteignir, lausafé, lífeyrissjóði og hlutafélög. Einstaklingarnir eiga misjafnlega mikið og þeir eru á misjöfnum aldri; sumir eru nýfæddir, aðrir orðnir mjög gamlir. Þessir einstaklingar mynda þjóðina.

Þjóðin á veiðiréttinn í gegnum fiskiskipin, en ekki ríkið. Ríkið getur átt í veiðirétti, ef það á hlut í fiskiskipi, alveg eins og þegar við vorum með ríkis- og bæjarútgerðir. En Alþingi fer með skattlagningarvaldið og Alþingi hefur ákveðið að setja auðlindagjöld og veiðigjöld á sjávarútveginn. Alþingi ákvað tekjuskattinn, útsvarið og allt svoleiðis. Alþingi ákvað að ef fyrirtækin græða, þá borgi þau tekjuskatt. Ef fyrirtækin úthluta arði til endanlegra eigenda sem eru einstaklingar þá greiða þeir fjármagnstekjuskatt.

Alþingi ákvað 1983 að láta veiðirétt á fiskiskip sem í dag eru öll í endalegri eigu einstaklinga á Íslandi. Þessir einstaklingar bera þá ábyrgð að sjávarútvegsfyrirtækin séu vel rekin. Ríkið fékk það hlutverk hins vegar að sjá um allar skráningar í gegnum Fiskistofu, allar hafrannsóknir í gengum Hafró og eftirlit með matvælaframleiðslu í gegnum Matvælastofnun. Hlutverk ráðherra er síðan að ákveða heildarafla á hverju ári en hann á að gera það í samráði við fyrirtækin í greininni og Hafró. En síðan hefur það gerst á síðasta áratug að sjávarútvegsráðherrar hafa einangrað sig frá okkur sem störfum í greininni.“

Farið eftir lögum

Guðmundur viðurkennir að hann skilji ekki alltaf umræðuna á þingi, þegar kemur að sjávarútvegi og kvóta. „Ég fór á sínum tíma til Sigurðar Líndal, lagaprófessors og fékk kynningu hjá honum. Hann sagði við mig að fiskurinn eigi sig sjálfur í sjónum, en réttur íslenskra fiskiskipa er að veiða fiskinn þegar hann er í íslenskri lögsögu, með löglegt veiðileyfi til að veiða og þegar fiskurinn er kominn inn fyrir borðstokkinn á útgerðin fiskinn. Svo er fiskurinn seldur fyrir pening og peningum skipt eftir fyrirfram gefnum leiðum á milli sjómanna og útgerðar sem ber kostnaðinn af veiðum. Ef afgangur er tekur ríkið sitt. Þannig er gangverkið. Þetta er ekki flókið.“

Guðmundur segir að allt sé uppi á borðum um eignarhald í sjávarútvegsfyrirtækjum. Ríkisskattstjóri er með allar upplýsingar um eignarhald, enda geri allir skattframtal á Íslandi. Allur veiðiréttur sé skráður á fiskiskip og öll fiskiskip séu skráð á eigendur og það gera allir skattframtöl á Íslandi, hvort sem það eru einstaklingar eða fyrirtæki. „Það er ekkert mál að fá að vita hverjir eiga hvað. Ríkisskattstjóri getur prentað það út. Umræðan um tengda aðila er byggð á röngum grunni. Lögin um stjórn fiskveiða segja skýrt hvað er meirihluti og minnihluti. Í lögum um stjórn fiskveiða er 49 minna en 51. Í lögum um samkeppniseftirlit getur 49 verið miklu meira en 51 þar sem þau byggja á huglægu mati. Lög um eignarhald í sjávarútvegi eru skýr en það eru ekki allir sammála þeim. Það er annað mál.

Eina ástæðan fyrir því að veiðirétturinn hefur verið svo sterkur, er vegna Fiskistofu þar sem allar upplýsingar er gagnsæjar. Þú getur séð nákvæmlega af hverju fiskiskip fékk kvótann, hvenær það landaði og hvaða afla, hvort það seldi varanlegan kvóta eða aflamark? Það er allt uppi á borðum.“

Auðlind og auðlind

Umræðan um kvótakerfið er oft býsna hörð, eins og komið hefur verið inn á. Hvað segir Guðmundur um þær gagnrýnisraddir að kerfið sé ekki sanngjarnt?

„Ég hef alltaf átt erfitt með að skilja þessa umræðu um sanngirni, af því að þetta er svo gildishlaðið orð. Er það sanngjarnt að höfuðborgarbúar hafi fengið heitt vatn fyrir mjög lítinn pening, en Snæfellingar hafi þurft að kaupa rafmagnið miklu dýrara til að kynda sín hús? Er það sanngjarnt að Snæfellingar þurfa núna að borga mikil veiðigjöld til ríkisins sem renna að mestu til höfuðborgarsvæðisins á meðan íbúar þar borga engin auðlindagjöld af heitu vatni? Þessi umræðar er oft á skjön.“

En hvað með þann mikla auð sem sumir hafa hlotið í greininni, skilur Guðmundur gremju vegna þess? „Mér finnst að fólkið sem hefur unnið í sjávarútvegi og er í þessu skilji þetta miklu betur heldur en þeir sem hafa aldrei komið nálægt greininni. Þó menn hafi selt veiðirétt, oft fyrir háar upphæðir, þá eyddu þeir honum á Íslandi. Þetta eru allt Íslendingar og peningurinn fór bara inn í hagkerfið aftur. Ég held að umræðan hafi snúist svolítið út á öfund. Það er gott að auður sé til í landinu, en hann þarf ekki allur að vera í ríkiseigu eða eigu sveitarfélaga,“ segir Guðmundur og bendir á að lífeyrissjóðskerfið sé stærsta einkaeignarkerfið á Íslandi.

„Ég held að þessi umræða hafi magnast upp, af því að það voru sett orð inn í lög um stjórn fiskveiða árið 1990 um að fiskimiðin væru sameign þjóðarinnar, án þess að skýra út hvað það þýddi. Ég hef spurt þá sem skrifuðu þetta og þeir sögðu að þetta hefði verið sett inn til að friða á pólitískum nótum. Þetta hafði ekkert eignarréttarlegt gildi og ekkert gildi annað en að friðþægja ákveðinn hóp. Enda sérðu að bara daginn eftir fara ríkisskattstjóri og fjármálaráðherra beint í að segja að þetta sé eign og Hæstiréttur staðfestir það.

Ég vildi alltaf segja skýrt að ríkið eigi ekki veiðiréttinn. Ríkið á ekki auðlindina, ríkið á ekki fiskinn í sjónum. Auðlindin á sig sjálf. En íslenska þjóðin, í gegnum Alþingi, ræður því hvernig þessi auðlind er nýtt og ræður skattlagningunni. Mér finnst margir Alþingismenn skauta framhjá þessu. Þeir halda að þeir geti verið popúlistar eða lýðskrumarar, en þjóðin sér alltaf í gegnum þetta og þeir eru bara kosnir í fjögur ár í einu sem betur fer.

Svo má ekki heldur gleyma því að miðað við arðsemiskröfur á Íslandi í dag er ekki hægt að vera með of mörg fiskiskip. Ef þú ætlar að lifa af þessu allt árið, eins og þú þekkir vel, þá geturðu ekki verið með litla báta á veturna, þá bara deyr fólk.“

Vinalaus eignast ÚA

Útgerðarsaga Guðmundar er orðin býsna löng og fjölbreytt. Eftir að þeir bræður skiptu fyritækinu upp árið 1998, keypti hann í Básafelli á Ísafirði; „af því að mig vantaði eitthvað að gera,“ eins og hann orðar það. Básafell var skráð á Verðbréfaþingi Íslands, en var eiginlega gjaldþrota, en fyrirtækið var með rekstur á Tálknarfirði, Flateyri, Suðureyri, Ísafirði og í Kanada.

„Það varð niðurstaðan að við stofnuðum Kamb á Flateyri og Íslandssögu á Suðureyri, seldum okkur út á Tálknafirði. Ég sagði við þá á Suðureyri og Flateyri að þeir yrðu að vera meirihlutaeigendur í þessum félögum, af því að heimamenn yrðu að hafa stjórn á þessu. Íslandssaga hefur gengið vel og Kambur gekk líka vel. Það voru heimamenn sem ráku og reka bæði þessi félög. Óðinn og Guðni á Suðureyri og Hinrik Kristjánsson og fjölskylda hans á Flateyri. Við stofnuðum líka Miðfell utan um rækjuna á Ísafirði. Svo tóku heimamenn yfir öll þessi félög.“

Óhætt er að segja að næstu stóru viðskipti Guðmundar hafi vakið athygli, en árið 2004 keypti hann Útgerðarfélag Akureyringa. Þau kaup vöktu upp hörð viðbrögð heimamanna og Guðmundur segir að KEA hafi átt að eignast félagið, en einfaldlega boðið of lágt verð. „Það varð allt vitlaust í pólitíska heiminum. Ég man að við skrifuðum undir á þriðjudeginum 13. janúar 2004. Á miðvikudeginum á hádegi daginn eftir voru fimm af ráðherrum Íslands búnir að hringja í mig og við vorum bara tvö á skrifstofunni og skildum ekkert í þessu. Þá var svo mikil pólitík í þessum sjávarútvegi. Ég hafði aldrei pælt mikið í pólitík þá. Menn skildu ekkert hvaða strákar þetta væru frá Rifi sem væru að kaupa Útgerðarfélag Akureyringa. Ég keypti þetta bara af aðilum í Reykjavík,“ segir Guðmundur, og rifjar upp að KEA-menn hafi ekki verið sáttir. „Eftir þetta fóru þeir að kalla mig vinalausan, í blöðunum. Þeir voru svo fúlir og voru skammaðir svo mikið fyrir að hafa ekki boðið hærra.“

Þó ýmsir hafi gagnrýnt kaup Guðmundar á ÚA, tekur hann fram að sér hafi samið vel við Akureyringa, þeir séu gott fólk. Hann seldi skip, kvóta og fasteignir á Akureyir árið 2011 til heimamanna og var sérstaklega ánægður með að kvótinn yrði eftir á Akureyri.

„Ég hef alltaf trúað á karma. Þú mátt ekki taka eitthvað út úr sveitarfélaginu, nema að koma með eitthvað annað í staðinn. Þegar við Hjálmar skiptum upp 1998, þá pössuðum við okkur á því að KG fiskverkun væri með mestan kvótann af öllum fyrirtækjum á Snæfellsnesi, þó svo að við splittuðum. Ég vildi ekki taka neinn kvóta til Reykjavíkur frá Snæfellsnesi. Ég hef alltaf staðið við það. Þess vegna var ég ánægður með að selja heimamönnum kvótann og eignirnar á Akureyri, þær yrðu þá áfram á staðnum.“

Almenningur með

Það er ekki laust við að Guðmundi sé skemmt þegar hann rifjar upp árin á Akureyri. Hann lætur sér pólitíska havaríið í léttu rúmi liggja og eins þegar talið berst að kaupum þeirra bræðra á stórum hlut í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum. Þau vöktu einnig upp sterk viðbrögð í Eyjum, en Guðmundur segir að fyrir þeim hafi ekkert annað legið en að reka fyrirtækið vel. „Við vildum bara reka þetta vel, vorum þátttakendur og vorum ekkert að stressa okkur á því að eiga ekki meirihlutann. Svo fannst okkur bara að það mætti reka þetta betur, en sem betur fer er Vinnslustöðin fjárhagslega sterkt félag í dag þó ekki hafi alltaf verið hlustað á ráðgjöf okkar bræðra,“ segir Guðmundur og brosir.

„Það er oft þannig í þorpum að það eru ákveðnir hópar sem telja sig stjórna og eiga allt í þorpinu, en samfélagið er kannski ekki alveg sammála því,“ segir Guðmundur og vísar í þá staðreynd að bæði á Akureyri og í Vestmannaeyjum hafi úrslit bæjarstjórnarkosninga komið mörgum á óvart. L-listinn náði hreinum meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar árið 2010 og Sjálfstæðisflokkurinn tapaði meirihluta sínum í Vestmannaeyjum árið 2018. „Þarna urðu hreinir meirihlutar til á báðum stöðum á móti þessum öflum sem ég lenti svona óbeint í. Maður fann alveg að almenningur var alltaf með okkur bræðrum. Það finn ég líka hér í Reykjavík. Ég kaupi í Granda 2018 og ég finn að almenningur og almennt starfsfólk er alveg með okkur. En þar lenti ég líka í því, þegar ég kaupi af Kristjáni Loftssyni í Granda 2018, að það koma alltaf einhver öfl sem finnast eins og að ég sé ekki rétti aðilinn til vera í rekstrinum.“

Breytingar á eignarhaldi

Óhætt er að segja að miklar breytingar hafi orðið á eignarhaldi í íslenskum sjávarútvegi síðustu áratugi. Það gleymist nefnilega stundum í umræðu um kvótakerfið að fæstir þeir sem fengu honum úthlutað í upphafi eiga hann enn. Brim er gott dæmi um þessar breytingar á eignarhaldi, en fyrirtækið verður 40 ára árið 2025. Í dag er Brim almenningshlutafélag og skráð á hlutabréfamarkaði og eru 55% af eignarhaldi í eigu hlutafélaga, 40% í eigu 20 lífeyrissjóða sem eru í eigu 200.000 sjóðsfélaga og síðan 5% í eigu einstaklinga.

„Þegar Brim er stofnað árið 1985, þá á Reykjavíkurborg 75% í félaginu og Ingvar Vihjálmsson útgerðarmaður 25%. Borgarstjórn tók ákvörðun um að selja sinn hluta af því að hún vildi nota peningana í annað. Þá kom hvalfangarinn með pening og fleiri smærri fjárfestar,“ segir Guðmundur, og vísar þar til Kristjáns Loftssonar, forstjóra Hvals hf. „Hann og félagar reka félagið í 30 ár og gera það vel, en síðan komum við Hjálmar bróðir og lífeyrissjóðirnir, með nokkrum einstaklingum, árið 2018 og tókum við. Við erum því þriðji aðilinn í þessari keðju. En í dag er oft eins og stjórnmálamenn í Reykjavík séu búnir að gleyma þessu. Reykjavíkurborg átti 75% í félaginu en seldi.“

Inni í Brimi í dag er útgerðin í Sandgerði, eiginlega öll útgerð í Reykjavík og nær öll útgerð á Akranesi og meira til. Og fullt af landi, sérstaklega Breiðin á Akranesi. Guðmundur segir að þar verði ekkert gert nema í góðu samstarfi við heimamenn. „Við gerum engin verðmæti úr Breiðinni nema í samstarfi við Akurnesinga. Akurnesingarnir hafa skipulagsvaldið yfir Breiðinni og þar er ekkert gert nema það sem bærinn vill, sem eru fulltrúar íbúanna. Landið er verðmætt núna, því nú skilur fólk verðmætið í því að vera við sjóinn og finna kraftinn frá sjónum.“

Byggðafesta

Guðmundur telur þörf á opinni og gagnsærri umræðu um sjávarútveginn, þar sem allt sé uppi á borðum. Sjávarútvegurinn sé víða burðarstoðin í samfélögunum og þörf sé á festu og fyrirsjánleika í umgjörð sjávarútvegsins. Hann leggur ríka áherslu á að heimamenn beri ábyrgð á rekstrinum, fólk sem búi í samfélögunum allt árið, ekki bara yfir sumarið. Það sé sárt þegar veiðirétturinn sé seldur út úr samfélaginu.

„Þegar þú selur veiðiréttinn út úr samfélagi sem er mjög einhæft og treystir eingöngu á sjávarútveg, þá hefur það áhrif á alla íbúana í samfélaginu sem hafa fjárfest, eiga sínar eignir og annað. En þetta er gert í nafni hagræðingar, af því að samfélagið vill meiri arðsemi út úr greininni og vill fá meiri peninga til Reykjavíkur. Það er engin launung.

Ég sagði alltaf heima í Rifi að þið megið helst ekki selja veiðiréttinn úr samfélaginu. Ef við pössum miðin fyrir utan, þá er þetta bara eins og besti víngarður í Bordaux héraðinu í Frakklandi, þú færð uppskeru ár eftir ár, en þú verður að passa upp á auðlindina,“ segir Guðmundur og kallar eftir samtali. „Ég segi samtal, sátt og skynsemi. Ég er ekki tilbúinn að gera sátt sem byggist ekki á skynsemi.“

Í brúnni. Guðmundur var til sjós og þau eru fá handtökin í fiskvinnslu sem hann hefur ekki unnið.

"Ég var alinn upp við það að vinna" - Skessuhorn