
Þjóðbúningadagurinn Skotthúfan í Stykkishólmi á laugardaginn
Á þjóðhátíðardeginn 17. júní síðastliðinn var opnuð sýning í Byggðasafni Snæfellinga og Hnappdæla í Stykkishólmi um Þjóðbúningahátíð Byggðasafnsins sem hófst fyrir 20 árum. Handverksdagur var haldinn um land allt á vegum Handverks & Hönnunar árið 2005 og í Byggðasafni Snæfellinga og Hnappdæla í Norska húsinu var boðið upp á kynningu á handverki tengdu tálgun úr íslensku birki og hinsvegar tengdu íslensku þjóðbúningunum. Þá var bryddað upp á þá nýbreytni að bjóða til þjóðbúningakaffis svo að fólk á búningum naut góðgerða í betri stofu Önnu Magdalenu.
Handverksdagar voru haldnir árin á eftir en breyttist síðar í þjóðbúningadaginn í Norska húsinu þar sem sem sjónum var einkum beint að íslensku þjóðbúningunum. Gestir hafa í tímans rás komið víða að á þjóðbúningadag Norska hússins en árið 2013 var ákveðið að dagurinn skyldi bera nafnið Skotthúfan og undir því nafni hefur þjóðbúningadagur farið fram síðan 2014.
Fjölmörg hafa lagt Skotthúfunni lið þessi 20 ár frá því að fyrst var haldinn þjóðbúningadagur. Handverksfólk, þjóðbúningasérfræðingar, gullsmiðir, ullarframleiðendur, vefarar, þjóðdansafélög, tónlistarfólk, kvæðafólk auk fjölmargra annarra hafa lagt hönd á plóg og gert hátíðina að því sem hún er í dag.
Samstarf við Heimilisiðnaðarfélag Íslands um Skotthúfuna hefur verið með miklum ágætum í gegnum tíðina sem og við heimafyrirtækin og stofnanir í Stykkishólmi sem ávallt hefur verið mætt með velvilja.
Á sýningunni má sjá skemmtilegar ljósmyndir frá þjóðbúningadeginum, síðar Skotthúfunni, frá ýmsum aðilum auk safnsins sjálfs og ber þar helst að nefna: Eyþór Benediktsson, Önnu Melsteð, Sumarliða Ásgeirsson, Heimir Hoffritz, Alberto Zaccarini og fleiri. Ljósmyndir þeirra eru undirstaða sýningarinnar sem opnaði í tilefni af 20 ára afmælis viðburðarins.
Skotthúfan 2025 fer fram næstkomandi laugardag 28. júní og nánari dagskrá hennar má sjá hér í blaðinu.
Fréttatilkynning
