Fréttir

Góður fjölskyldu veiðidagur við Hlíðarvatn í Hnappadal

Laugardaginn 21. júní stóð Stangaveiðifélag Borgarness (SVFB) fyrir fjölskyldu veiðidegi við Hlíðarvatn í Hnappadal. „Veðrið var frábært; hægviðri, skýjað og hiti um 15 gráður,“ sagði Valdimar Reynisson formaður félagsins í samtali við Skessuhorn. „Mæting var mjög góð því um 30 manns mættu á þennan viðburð. Það var mikið af ungum veiðigörpum sem voru mjög áhugasamir um veiðarnar. Jón Ingi Kristjánsson leiðbeindi þeim sem vildu með fluguköst og voru nokkrir sem þáðu það og fengu góða kennslu. Fiskurinn var heldur tregur að taka en þó komu nokkrir fiskar á land, en frekar smáir. Undir lok dags fannst staður þar sem smáfiskur var nokkuð viljugur að taka og fóru ungu veiðigarparnir þangað. Þar fengu flestir fisk og fóru sáttir heim,“ segir Valdimar.