
Skrúðganga með forseta í broddi fylkingar
Norðurálsmótið í knattspyrnu hefst formlega nú klukkan 11:30 með ávarpi Höllu Tómasdóttur forseta Íslands sem setur mótið. Skrúðganga hélt af stað frá Stillholti klukkan 11 þar sem lögregla fór á undan og Halla Tómasdóttir forseti, Haraldur Benediktsson bæjarstjóri og trommusveit gengu í broddi fylkingar. Síðan kom hvert íþróttaliðið á fætur öðru; keppendur og aðstandur þeirra og hrópuðu til stuðnings sínu félagi. Leikskólabörn á Akranesi voru mætt með fána og veifuðu til gestanna. Norðurálsmótið í knattspyrnu hefst síðan klukkan 12:30 og verður stíf dagskrá fram á sunnudag. Meðfylgjandi myndir eru frá skrúðgöngunni í blíðskaparveðri, en þó sólarlausu.