
Þrjú lögregluembætti samtímis í húsleitum
Lögreglan á Norðurlandi eystra greinir frá því á FB síðu sinni að í gærmorgun, 18. júní, hafi verið farið í samræmdar lögregluaðgerðir á nokkrum stöðum á landinu þar sem framkvæmdar voru húsleitir að undangengnum úrskurðum frá Héraðsdómi Norðurlands eystra. Samkvæmt óstaðfestum heimildum var meðal annars ráðist í aðgerðir á Raufarhöfn og á Vesturlandi. Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur um nokkurt skeið unnið að rannsókn á skipulagðri brotastarfsemi sem talin er tengjast fíkniefnaframleiðslu. Með aðgerðunum í gær var unnt að staðfesta þessar grunsemdir og er rannsókn nú á frumstigi. Farið verður fram á gæsluvarðhald yfir sakborningum í dag. Í aðgerðunum var lögreglan á Norðurlandi eystra í samstarfi við lögregluna á Vesturlandi, lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og sérsveit Ríkislögreglustjóra. „Málið er enn á viðkvæmu stigi og ekki er unnt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu,“ segir í tilkynningu.