
Varmadælur spara íbúum á köldum svæðum 300 þúsund krónur á ári
Út er komin skýrsla sem unnin var af Bláma og Gleipni fyrir Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi með það að markmiði að veita heildstætt yfirlit á tækifærum til umbóta á sviði orkumála, með sérstakri áherslu á að tryggja raforkuöryggi, bæta orkunýtingu og lækka orkukostnað fyrir íbúa á þeim svæðum sem flokkast sem rafkynt svæði á Vesturlandi. Þessi svæði eru Snæfellsbær, Grundarfjörður og dreifbýli víða á Vesturlandi. Í úttektinni fólst meðal annars að greina núverandi stöðu orkumála, meta hvar tækifæri liggja og leggja til aðgerðir sem geta styrkt orkuöryggi og hagkvæmni húshitunar á svæðunum. „Töluverð tækifæri felast í frekari varmadæluvæðingu í dreifbýli og í stærri mannvirkjum í eigu sveitarfélaga, frekari jarðhitarannsóknum og stuðningi við smávirkjanir,“ segir í skýrslunni. Með varmadæluvæðingu heimila á köldum svæðum sparast allt að þrjú hundruð þúsund krónur á hvert heimili árlega og ríkið aðra eins upphæð, eða 308 þúsund krónur. Ávinningurinn er því gríðarlegur.