Fréttir
Húsið er einungis að hluta risið. Ljósm. hj

Nýtt stórhýsi Þróttar sprettur upp

Á undanförnum vikum hefur nýtt hús tekið á sig æ stærri mynd í Lækjarflóa ofan Akraness. Húsið mun í fyllingu tímans hýsa starfsemi jarðvinnufyrirtækisins Þróttar ehf. á Akranesi sem undanfarna áratugi hefur haft aðsetur á Ægisbraut. Að sögn Helga Ómars Þorsteinssonar framkvæmdastjóra verður húsið ríflega 1.300 fermetrar að stærð. Hluti þess verður á tveimur hæðum. Helgi segir starfsemi félagsins hafa fyrir löngu sprengt núverandi hús utan af sér á Ægisbrautinni. Því hafi fyrirtækið ráðist í þessa framkvæmd eftir makaskipti á lóðum við Akraneskaupstað. Bæjarfélagið hafi á undanförnum árum velt fyrir sér breyttri notkun á svæðinu við Ægisbraut og því hafi hagsmunir beggja legið saman.