
Ný stjórn tekin við í hestamannafélaginu Borgfirðingi
Í gærkvöldi fór fram almennur félagsfundur í hestamannafélaginu Borgfirðingi í Vindási. Húsfyllir var á fundindum, á annað hundrað manns, og ljóst að þungur tónn var undirliggjandi. Til fundarins var boðað í síðustu viku í kjölfar þess að tillaga um vantraust á stjórn hafði borist þar sem yfir tíu prósent félagsmanna rituðu nafn sitt undir. Áður hafði um helmingur stjórnar sagt af sér og stjórnin því löskuð. Valdimar Leó Gunnarsson var fenginn til að stýra fundi og fórst það vel. Í byrjun fundar kvað fólk úr fráfarandi stjórn sér hljóðs og lýsti frá sinni hendi því sem gengið hafi á og orskakaði deilur. Þetta voru þau Eyþór Jón Gíslason fráfarandi formaður, Hrafnhildur Guðmundsdóttir ritari og Steinunn Árnadóttir stjórnarkona. Eftir þau innlegg kváðu nokkrir almennir félagsmenn sér hljóðs og lýstu áhyggjum sínum yfir ástandinu í félaginu, það væri laskað og langt frá því að vera gaman eins og það átti að vera. Eftir þær umræður kynnti fundarstjóri að komið væri að kosningu um vantrauststillöguna. Beiðni um leynilega atkvæðagreiðslu barst, en áður en til hennar kom höfðu þeir síðustu í stjórn félagsins einnig boðað afsögn sína. Því kom ekki til kosningar um vantraust á stjórn og var gengið til kosninga á bráðabirgðastjórn sem situr til næsta aðalfundar.