Fréttir
Dalabyggð er nú með í gangi stærsta verkefni sem sveitarfélagið hefur ráðist í; bygging nýs íþróttahúss og sundlaugar í Búðardal.

Dalirnir; fólkið og framtíðin

Fyrir nokkrum árum stóð sveitarfélagið Dalabyggð frammi fyrir áskorunum sem íbúar margra dreifbýlla svæða þekkja; fólksfækkun og erfiðleika því samhliða. En í dag státar héraðið af því að hafa tekist á við þessar aðstæður af festu, íbúum er aftur tekið að fjölga og íbúðarhúsnæði fullsetið. „Við höfum unnið markvisst að því að endurreisa ímynd Dalabyggðar og sýna fram á þau tækifæri sem eru í héraðinu. Það er ekki lengur spurning um hvort Dalabyggð sé fær um að laða að sér fólk og fyrirtæki, heldur hvernig við getum best nýtt þau tækifæri sem skapast með okkar öfluga mannauði,“ skrifar Björn Bjarki Þorsteinsson í inngangsorðum sérblaðs sem fylgir Skessuhorni í dag. Blaðið heitir einfaldlega „Dalirnir; fólkið og framtíðin,“ og er samstarfsverkefni Dalabyggðar, SSV og Skessuhorns.

Þegar Dalamenn stóðu frammi fyrir þeirri áskorun að efla byggð á nýjan leik með samstilltu átaki var slagorð fyrir endurreisn ímyndar sveitarfélagsins; Við yrkjum lífsgæðin. „Þetta slagorð og val á því er ekki tilviljun; það lýsir kjarna Dalabyggðar og þeim gildum sem við stöndum fyrir. Það vísar til djúpstæðra róta okkar í landbúnaði – þar sem landið er unnið og fær að blómstra – en það nær einnig til miklu víðari merkingar. Það táknar þá staðreynd að við erum ekki einungis að rækta jarðveginn, heldur erum við að rækta og byggja upp lífsgæði hér í Dölum,“ skrifar sveitarstjórinn.

Skessuhorn í dag var prentað í stærra upplagi en venjan er, eða 8000 eintökum. Auk hefðbundinnar dreifingar mun starfsfólk Dalabyggðar taka stóran hluta upplagsins og dreifa á valda staði í sumar, til að gestir og gangandi geti í rólegheitunum kynnt sér hvað samfélagið í Dölum stendur fyrir.

Forsíða 24 síðna sérblaðs sem fylgir Skessuhorni í dag

Dalirnir; fólkið og framtíðin - Skessuhorn