Fréttir

Andlát – Orri Harðarson

Tónlistarmaðurinn og rithöfundurinn Orri Harðarson lést 7. júní síðastliðinn, 52 ára að aldri. Frá andláti hans greina dætur hans, foreldrar, bróðir og fjölskylda í Morgunblaðinu í dag. Orri fæddist á Akranesi í desember 1972. Þar ólst hann upp og bjó svo síðar með hléum. Ungur að árum starfaði hann við ýmislegt í heimabæ sínum en hleypti svo heimdraganum og gerðist tónlistarmaður. Átti hann eftir að hljóta ýmsar viðurkenningar á þeim vettvangi, þar á meðal Íslensku tónlistarverðlaunin. Gaf hann út einar fimm sólóplötur. Hljóðversvinna var alllengi hans aðalstarf; hann stýrði upptökum, útsetti, hljóðblandaði og lék á hljóðfæri. Síðar komu margvísleg ritstörf inn í myndina; þýðingar, yfirlestur og fleira tengt bókaútgáfu. Eftir hann liggja nokkrar bækur en þá fyrstu gaf hann út árið 2008; Alkasamfélagið, og hlaut fyrir hana Fræðslu- og vísindaviðurkenningu Siðmenntar. Stundarfró var svo fyrsta skáldsaga eftir hann, en einnig skrifaði hann bókina Endurfundi sem gerist á Akranesi árið 1991.

Í febrúar á þessu ári gengust vinir Orra fyrir tónleikum í Bíóhöllinni á Akranesi þar sem fagnað var lífinu og tónlistinni, en Orri glímdi þá við illvígt og ólæknandi krabbamein. Einstök stemning var á tónleikunum sem haldnir voru fyrir fullu húsi. Allur aðgangseyrir af tónleikunum rann inn á styrktarreikning til tveggja dætra Orra og er reikningurinn opinn fyrir frjáls framlög. Reikningsnúmerið er 0123-15-194552 og kt. er 280249-4169.

Andlát - Orri Harðarson - Skessuhorn